„Því er það mjög sárt að upplifa það á eigin skinni að hafa verið … og bara í raun og veru að orða: „Ég er þolandi ofbeldis.“ Samt út á við kem ég fram sem prestur og alltaf í styrkleika,“ segir séra Sunna Dóra Möller, prestur við Digranes- og Hjallaprestakall, en hún er ein sex kvenna sem stigu fram í lok síðasta árs og ásökuðu séra Gunnar Sigurjónsson, þá sóknarprest við Digranes- og Hjallaprestakall, um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti.
Síðustu mánuði hefur óháð teymi, sem Þjóðkirkjan setti á laggirnar til að rannsaka mál séra Gunnars, haft málið til meðferðar. Teymið hefur nú lokið störfum og komist að niðurstöðu, en Biskupstofa sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag vegna málsins. Þar kemur fram að Gunnar hafi í tíu tilvikum orðið uppvís að háttsemi sem stríði gegn ákvæðum þriðju greinar EKKO rg. (sem tekur á einelti, ofbeldi og kynbundnu- og kynferðislegri áreitni), auk þess sem teymið metur háttsemi sóknarprestsins í orði og athöfnum ósæmilega, óhæfilega og ósamrýmanleg starfi hans sem sóknarprestur.
Í kjölfarið hefur verið ákveðið að víkja Gunnari úr starfi við prestakallið og mun biskup veita honum skriflega áminningu.
Sunna Dóra mætti í Fréttavaktina á Hringbraut ásamt samstarfskonu sinni, séra Karen Lind Ólafsdóttur sem einnig er þolandi í málinu, og ræddi stöðuna. Að sögn Sunnu verður kirkjan aldrei undanþegin því að slík menning verði til staðar.
„Kirkjan er fjöldahreyfing og þarna eru manneskjur og manneskjur eru allskonar. Prestsstarfið gefur okkur engan afslátt í raun og veru, það er bara þannig að við getum öll orðið sek um markaleysi í samskiptum og við erum lítill vinnustaður með gríðarlega ábyrgð í okkar starfi og þurfum að standa vaktina,“ segir Sunna Dóra.
Hér fyrir neðan má sjá stutta klippu úr viðtalinu við Sunnu Dóru, en viðtalið í heild sinni má sjá á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld klukkan 18:30.