„Því er það mjög sárt að upp­lifa það á eigin skinni að hafa verið … og bara í raun og veru að orða: „Ég er þolandi of­beldis.“ Samt út á við kem ég fram sem prestur og alltaf í styrk­leika,“ segir séra Sunna Dóra Möller, prestur við Digra­nes- og Hjalla­presta­kall, en hún er ein sex kvenna sem stigu fram í lok síðasta árs og á­sökuðu séra Gunnar Sigur­jóns­son, þá sóknar­prest við Digra­nes- og Hjalla­presta­kall, um kyn­ferðis­lega á­reitni, kyn­bundið of­beldi og ein­elti.

Síðustu mánuði hefur óháð teymi, sem Þjóð­kirkjan setti á lag­girnar til að rann­saka mál séra Gunnars, haft málið til með­ferðar. Teymið hefur nú lokið störfum og komist að niður­stöðu, en Biskup­s­tofa sendi frá sér til­kynningu fyrr í dag vegna málsins. Þar kemur fram að Gunnar hafi í tíu til­vikum orðið upp­vís að hátt­semi sem stríði gegn á­kvæðum þriðju greinar EKKO rg. (sem tekur á ein­elti, of­beldi og kyn­bundnu- og kyn­ferðis­legri á­reitni), auk þess sem teymið metur hátt­semi sóknar­prestsins í orði og at­höfnum ó­sæmi­lega, ó­hæfi­lega og ó­sam­rýman­leg starfi hans sem sóknar­prestur.

Í kjölfarið hefur verið ákveðið að víkja Gunnari úr starfi við presta­kallið og mun biskup veita honum skrif­lega á­minningu.

Sunna Dóra mætti í Frétta­vaktina á Hringbraut á­samt sam­starfs­konu sinni, séra Karen Lind Ólafs­dóttur sem einnig er þolandi í málinu, og ræddi stöðuna. Að sögn Sunnu verður kirkjan aldrei undan­þegin því að slík menning verði til staðar.

„Kirkjan er fjölda­hreyfing og þarna eru mann­eskjur og mann­eskjur eru alls­konar. Prests­starfið gefur okkur engan af­slátt í raun og veru, það er bara þannig að við getum öll orðið sek um marka­leysi í sam­skiptum og við erum lítill vinnu­staður með gríðar­lega á­byrgð í okkar starfi og þurfum að standa vaktina,“ segir Sunna Dóra.

Hér fyrir neðan má sjá stutta klippu úr við­talinu við Sunnu Dóru, en við­talið í heild sinni má sjá á Frétta­vaktinni á Hring­braut í kvöld klukkan 18:30.