Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir það rangt að farþegum sem voru á leið 18 úr Grafarholti í gær hafi verið vísað úr vagninum og út í óveðrið sem gekk yfir. Búið sé að tala við viðkomandi vagnstjóra sem hafi tekið fyrir að nokkrum manni hafi verið vísað út.
Vísir greindi frá því fyrr í dag að farþegum sem voru á ferð með leið 18 í átt að Spönginni í Grafarvogi í gærkvöldi hafi verið vísað úr vagninum við Ingunnarskóla í Grafarholti vegna ófærðar í Úlfarsárdal. Í fréttinni kemur fram að vagnstjóri hafi ekki boðið farþegum að fara með vagninum í skjól og þeir því þurft að fá aðstoð björgunarsveita til að komast leiða sinna.
„Við erum búin að tala við vagnstjórann og það var engum vísað úr vagninum. Það var tilkynnt bæði á heimasíðu okkar og í Klappinu að leið 18 gæti ekki keyrt í Úlfarsárdal vegna færðar og óveðurs, þannig að leiðin var stytt um Jónsgeisla í Grafarholti. Þegar þangað var komið segir vagnstjóri að hann hafi sagt farþegum að lengra kæmist hann ekki vegna færðar,“ segir Jóhannes.
Málið hafi verið skoðað sérstaklega vegna barns sem hafi verið þarna á ferð.
„Vagnstjórinn segir að stúlkan hafi óskað eftir því að fá að fara út. Hún hafi verið með síma með sér og taldi vagnstjórinn að hún ætlaði að hringja í foreldra sína og láta sækja sig,“ segir Jóhannes.
Aðspurður segir Jóhannes að öllum farþegum hafi staðið til boða að halda áfram með vagninum, hafi þeir kosið svo.
„Það var öllum velkomið að vera með okkur áfram ef þeir hefðu viljað, jafnvel hring eftir hring. En það var engum vísað úr vagninum,“ áréttir Jóhannes.
Í samtali við Vísi fyrr í dag sagði Jóhannes að það kæmi honum á óvart hvað fólk væri mikið á ferðinni þrátt fyrir veðurviðvaranir og væri hugsi yfir því hversu lítið fólk fylgist með viðvörunum. Spurður nánar út í þetta segir Jóhannes að hann hefði meint að hann hafi verið hugsi yfir börnum sem séu á ferðinni við slíkar veðuraðstæður.
„Maður hefur auðvitað skilning á því að fullorðnir telji sig ráða við aðstæður og séu því á ferðinni, en það er kannski annað með ung börn,“ segir hann.
Jóhannes segir að ekki hafi komið til greina að fella niður akstur vegna slæmrar veðurspá. Allt of margir treysti á þennan ferðamáta.
„Við höfum verið mjög tregir við að hætta. Ef við höfum hætt akstri, sem hefur nú komið fyrir stundum, höfum við fengið yfir okkur fúkyrðaflaum frá farþegum okkar sem treysta á okkur, sem eru fjölmargir. Það væri þá ekki nema að það sé komið á rautt stig og Almannavarnir eru að vara við því að fólk sé á ferðinni,“ segir Jóhannes.