„Í fyrsta lagi fagna ég þeim mikla áhuga sem þarna er endurspeglaður á að vernda víðerni, því að þau hafa minnkað mikið hér á landi á síðustu 70 árum, einmitt út af framkvæmdum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, inntur eftir viðbrögðum við áskorun yfir 5.000 Íslendinga þess efnis að ráðherra flýti friðlýsingu Drangajökulsvíðerna. Svæðið innifelur það svæði sem VesturVerk hefur hafið vegaframkvæmdir á til undirbúnings Hvalárvirkjunar.

Getur ekki friðlýst einn síns liðs

Guðmundur segir, í samtali við Fréttablaðið, að afar mikilvægt sé að þessar skoðanir fólks berist til stjórnvalda. Hendur hans eru þó bundnar í þessu tilviki. „Þarna er verið að skora á mig að hraða ákveðinni friðlýsingu . Lögum samkvæmt getur ráðherra ekki friðlýst svæði nema að annað hvort ákvörðun Alþingis, þess efnis, liggi fyrir eða að sveitarstjórn og landeigendur samþykki slíka friðlýsingu. Hvorugt er til staðar í þessu tilfelli.“

Hann segir þó að vinna úr tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands standi yfir í ráðuneytinu og stofnunum þess um hvaða svæði landsins eigi að friðlýsa á næstu fimm árum og sé svæðið sem um ræðir til umfjöllunar þar. „Þetta er í ferli hjá ráðuneyti og stofnunum en við erum að stefna að því að leggja þingsályktunartillögu fram á næsta löggjafarþingi,“ segir Guðmundur. Ákvörðun Alþingis þurfi þannig að koma til.

Rétt að bíða eftir úrskurði nefndarinnar

Spurður út í afstöðu sína til fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda VesturVerks á Hvalá segir ráðherrann málið afar flókið og umdeilt. Hann furðaði sig þó á því að VesturVerk skuli hafa hafið framkvæmdir á svæðinu þrátt fyrir að framkvæmdaleyfið hafi verið kært. Fréttablaðið greindi þannig frá því í síðasta mánuði þegar landeigendur í Drangavík kærðu framkvæmdaleyfi VesturVerks. „Mín persónulega skoðun er allavega sú að það sé rétt að bíða eftir úrskurði nefndarinnar, ekki síst í jafnumdeildu máli. Annað er í raun óverjandi,“ útskýrir Guðmundur.

Framkvæmdir VesturVerks hafa hafist á vegarkafla í Ófeigsfirði. Þær voru þó stöðvaðar tímabundið skömmu síðar af Minjastofnun.

„Það tekur bara nokkrar vikur fyrir úrskurðarnefndina að ákveða hvort stöðva eigi framkvæmdir eða ekki. Og síðan má spyrja sig líka í þessu tilfelli: Er verið að finna hentugustu leiðirnar, sem hafa minnst áhrif á náttúruna á þessu rannsóknarstigi?“ heldur Guðmundur áfram. Framkvæmdir VesturVerks sem um ræðir eru þannig einungis til undirbúnings rannsókna á svæðinu áður en virkjanaframkvæmdirnar sjálfar geta hafist.

Þarf meira rafmagn?

Aðspurður hvort virkileg þörf sé fyrir aukna framleiðslu raforku á landinu segir Guðmundur það vera spurningu sem mikilvægt sé að spyrja sig reglulega. „Þetta er eitt af því sem svo kölluð nefnd um orkustefnu er að vinna í að varpa skýrara ljósi á. Það fer kannski eftir því hvaða þætti menn taka inn í jöfnuna, orkuskipti í samgöngum og svo framvegis,“ segir Guðmundur.

„Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr vinnu nefndarinnar en þangað til vitum við ekki nákvæmlega hver þessi þörf er. Á meðan við höfum ekki stefnu sem þverpólitísk samstaða er um, er erfitt að svara þessari spurningu – það fer allt eftir því hvernig við skilgreinum þörfina,“ sagði Guðmundur að lokum.