Donald Trump, Banda­ríkja­for­seti, segir að enginn af sínum undir­mönnum ó­hlýðnist sér og að þær fréttir sem hafi verið fluttar upp úr skýrslu Robert Mueller, sér­staks sak­sóknara, um meinta ó­hlýðni þeirra sé lygi, að því er fram kemur á vef CNN.

„Enginn ó­hlýðnast skipunum mínum,“ sagði Trump en hann var spurður að blaða­manni CNN hvort hann hefði á­hyggjur af því að stars­fólk hans hrein­lega ó­hlýðnaðist fyrir­skipunum hans eða reyndi að koma sér undan þeim. Slíkt er full­yrt að sé nokkuð al­gengt í skýrslu Mueller, sem gerð var opin­ber í síðustu viku.

„Til­raunir for­setans til að hafa á­hrif á rann­sóknina gengu ekki upp en það var að stærstum hluta vegna þess að mann­eskjurnar í kringum for­setann neituðu að fylgja skipunum hans eða að verða við óskum hans,“ segir meðal annars orð­rétt í skýrslunni.

Skýrslan málar upp mynd af starfs­fólki for­seta sem reynir í­trekað að koma í veg fyrir að hann láti undan sínum verstu hvötum og þar með verður það gjarnan ekki við óskum hans. For­setinn sagðist í vikunni ekki hafa neinar á­hyggjur af hug­myndum Demó­krata um að reyna að koma honum úr em­bætti fyrir af­glöp í starfi. Kallað hefur verið eftir því í kjöl­far skýrslunnar.