„Það var náttúrulega ekki nógu gott þetta viðtal. Hann hefur beðist afsökunar í nokkrum liðum. Að honum þyki leiðinlegt að hafa sært fólk. Hann hélt að málið væri öðruvísi en hefur komið í ljós núna, eftir að við sáum tilkynningu biskups,“ segir séra Eva Björk Valdimarsdóttir, varaformaður Prestafélags Íslands, um viðtal við formann félagsins, séra Arnald Bárðarson, á Útvarpi Sögu í síðustu viku.
Þar ræddi Arnaldur efnislega, og án þess að hafa málsgögn undir höndum, um ásakanir sex kvenna á hendur séra Gunnari Sigurjónssyni, fyrrverandi sóknarpresti við Digranes- og Hjallaprestakall, um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti.
Í opinni færslu á Facebook síðu sinni í vikunni segist Arnaldur harma að hafa farið í viðtalið og biður þá sem hlut eiga í máli afsökunar.
Spurð segir Eva Björk að það sé ekki hennar að dæma um það hvort slík afsökunarbeiðni sé nóg.
„Ef ég er að fara að gefa út yfirlýsingu um það er ég að taka valdið af konunum sem afsökunarbeiðnin beinist að. Það er í þeirra valdi að ákveða hvort það sé nóg eða ekki.
Hér fyrir neðan má sjá stutta klippu úr viðtalinu við Evu Björk, en viðtalið í heild sinni má sjá á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld klukkan 18:30.