„Það var náttúru­lega ekki nógu gott þetta við­tal. Hann hefur beðist af­sökunar í nokkrum liðum. Að honum þyki leiðin­legt að hafa sært fólk. Hann hélt að málið væri öðru­vísi en hefur komið í ljós núna, eftir að við sáum til­kynningu biskups,“ segir séra Eva Björk Valdimars­dóttir, vara­for­maður Presta­fé­lags Ís­lands, um við­tal við for­mann fé­lagsins, séra Arnald Bárðar­son, á Út­varpi Sögu í síðustu viku.

Þar ræddi Arnaldur efnis­lega, og án þess að hafa málsgögn undir höndum, um á­sakanir sex kvenna á hendur séra Gunnari Sigur­jóns­syni, fyrr­verandi sóknar­presti við Digra­nes- og Hjalla­presta­kall, um kyn­ferðis­lega á­reitni, kyn­bundið of­beldi og ein­elti.

Í opinni færslu á Face­book síðu sinni í vikunni segist Arnaldur harma að hafa farið í við­talið og biður þá sem hlut eiga í máli af­sökunar.

Spurð segir Eva Björk að það sé ekki hennar að dæma um það hvort slík af­sökunar­beiðni sé nóg.

„Ef ég er að fara að gefa út yfir­lýsingu um það er ég að taka valdið af konunum sem af­sökunar­beiðnin beinist að. Það er í þeirra valdi að á­kveða hvort það sé nóg eða ekki.

Hér fyrir neðan má sjá stutta klippu úr við­talinu við Evu Björk, en við­talið í heild sinni má sjá á Frétta­vaktinni á Hring­braut í kvöld klukkan 18:30.