Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segist hreinlega ekki vita hvernig Landhelgisgæslan muni koma til með að sinna eftirlits- og björgunarhlutverki sínu í lofti þegar eftirlitsflugvélin TF-Sif verður seld. Landhelgisgæslan hafi ekki aðgang að neinum öðrum sambærilegum flugvélum, hvorki hér á landi né erlendis.
„Satt best að segja höfum við ekki hugmynd um hvernig við eigum að sinna eftirliti við Íslandsstrendur þegar flugvélin verður seld. Við vitum að það er allskyns umferð hérna sem er ekki að tilkynna sig og við sjáum ýmislegt á gervihnattarmyndum sem við getum ekki tékkað á þegar flugvélin er ekki hérna og því veit enginn hvað er að gerast í lögsögunni,“ segir Georg.
„Auðvitað væri heppilegra að hafa hana á Íslandi, en það hefur verið út af neyð sem við höfum þurft að leigja hana til útlanda. En það er svo merkilegt að í hvert skipti sem hún flýgur í kringum landið finnst alltaf eitthvað athugunarvert sem þarfnast nánari skoðunar,“ bætir hann við.
Segir söluna hafa komið á óvart
Síðastliðinn mánudag sendi dómsmálaráðuneytið Landhelgisgæslunni bréf þar sem tilkynnt var að vegna rekstrarhalla gæslunnar skyldi rekstri á TF-SIF hætt frá og með 1. febrúar og flugvélin seld. Lagt var fyrir Landhelgisgæsluna að hefja söluferli hennar sem Georg segir að hafi komið sér á óvart.
„Við trúðum því aldrei að þetta yrði að raunveruleika. Í raun voru þetta bara hugmyndir á blaði. En ef það á að skerða viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar til þess að ná inn einhverjum 600 milljónum þarf að gera eitthvað róttækt,“ segir Georg. Þrennt hafi verið í stöðunni.
„Að hætta rekstri varðskipsins Freyju á Siglufirði, að skila einni af þremur björgunarþyrlum og fækka um eina áhöfn þar, eða þá selja flugvélina TF-Sif,“ segir Georg.
„Síðasti kosturinn er illskásti kosturinn, en engan veginn tækur kostur samt. Í raun er hann bara hreint og beint galinn,“ bætir hann við.
„Þú selur ekki bílinn þinn fyrr en þú hefur fundið annan bíl“
Spurður segir Georg að Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, hafi lýst yfir hugmyndum um samstarf við Isavia um kaup á nýrri eftirlitsflugvél, sem Georg segir að sé góðra gjalda verðar.
„Ráðherra hefur lýst yfir hugmyndum sínum um samstarf við Isavia um kaup á nýrri flugvél, sem er svo sem ágæt hugmynd. Það er bara ekkert farið af stað. Það tók okkur fjögur ár að afla þessarar flugvélar eftir að pólitísk ákvörðun var tekin að hún skyldi keypt. Það er ekki einu sinni kominn neinn viðræðugrunnur við Isavia,“ segir Georg.
„Þannig að það er svolítið magnað að þetta sé gert svona, því þú selur ekki bílinn þinn fyrr en þú hefur fundið annan bíl,“ bætir hann við.
Tólf manns missa vinnuna
Að sögn Georgs munu tólf manns missa vinnuna við söluna, sex flugmenn, fimm stýrimenn og einn flugvirki. Flugvélin sé þó enn í leigu erlendis og söluferlið á byrjunarstigi.
„Við áttum að hætta í gær en við ætlum að reyna að þrjóskast við í mánuð í viðbót. Við erum með verkefni á vélinni sem gæti hugsanlega gefið okkur pening og framlengt starfsfólki um einn mánuð. En við förum auðvitað að fyrirmælum ráðherra og munum hætta starfseminni sem allra fyrst. Eins og staðan er núna höfum við ekki heimild til að selja vélina, það þarf lagaheimild til þess, og þegar hún liggur fyrir munum við fara að vinna í því að selja hana,“ segir Georg.
Salan muni hins vegar ekki skila miklu í ríkiskassann.
„Þessi flugvél kostaði 34 milljónir dollara á sínum tíma, sem á þeim tíma voru rúmir 5 milljarðar. Í dag myndi slík vél kosta á bilinu sjö til níu milljarða. Við munum ekki fá neina peninga sem skipta máli fyrir þessa vél. Það er ekkert ríki að fara að kaupa gamla leitar- og björgunarvél. Kaupandi hugsanlegur myndi þá breyta henni í farþegavél sem kostar töluverðan pening,“ segir Georg.
„Þannig að verðið í henni er lítið sem ekkert, en hún er gríðarlega verðmæt fyrir Ísland og Íslendinga eins og hún er. Hættan er sú að ef við missum þessa vél, sem gæti enst okkur í fimmtán til tuttugu ár í viðbót, fáum við bara ekkert í staðinn. Og ekki veit ég hvernig okkur tekst að afla sjö til níu milljarða til að kaupa eina flugvél eins og ástandi er í dag,“ bætir hann við.