„Það er augljóst að Kúrdum svíður mjög,“ sagði Ögmundur Jónasson, fyrrum ráðherra, um samkomulag sem Finnar og Svíar gerðu við Tyrki í vikunni til þess að fá Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseta til að samþykkja aðildarumsókn ríkjanna að Atlantshafsbandalaginu.

Með samkomulaginu hafa Finnar og Svíar samþykkt að herða hryðjuverkalöggjöf sína, taka til greina framsalsbeiðnir Tyrkja á tilteknum Kúrdum í Svíþjóð og Finnlandi og skilgreina kúrdneskar þjóðernishreyfingar sem hryðjuverkasamtök. Er þar meðal annars um að ræða þjóðernishreyfingar Kúrda sem starfa í norðurhluta Sýrlands og unnu flesta mikilvægustu sigrana í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Meðal annars hafa Tyrkir horn í síðu Þjóðvarnarsveita Kúrda (YPG), sem unnu úrslitasigur í orrustunni um höfuðvígi ISIS, borgina Al-Raqqa, árið 2017.

„Kúrdar líta svo á að þarna sé verið að tefla með þeirra mannréttindi á borði stórvelda og hernaðarhagsmuna,“ sagði Ögmundur við Fréttablaðið. „Þeir gefa lítið fyrir að þeirra réttindi og hagsmunir séu í húfi.“

Skilaboðin ætluð Bandaríkjamönnum

Ögmundur segir þó að hann telji upphaflega andstöðu Erdoğans við NATO-aðild Norðurlandanna tveggja í reynd hafa verið skilaboð til Bandaríkjamanna. „Ég held að hann hafi verið að segja við Bandaríkjamenn að þeir skuli hafa sig hæga varðandi stríðsrekstur Tyrkja í norðanverðu Sýrlandi og austan landamæra Tyrklands og Íraks. Þar hafa Tyrkir herjað án afláts frá því í apríl og það er bara síðasta hrinan í árásum þeirra þar.“

„Kúrdar hafa haldið því fram að Tyrkir beiti efnavopnum og hafa farið þess á leit að það verði rannsakað, en það heyrist ekki múkk frá Haag. Sú stofnun sem á hafa eftirlit með slíkum vopnum svarar engu slíku ákalli og alþjóðasamfélagið er ótrúlega þögult þegar kemur að þessum stríðsrekstri gegn Kúrdum. Þetta er samhengið sem ég hef á tilfinningunni að Kúrdar skoði þessar vendingar í NATO í. Þeir líti svo á að það sé verið að fórna þeirra réttindum, að menn gefi lítið fyrir þau svo lengi sem allir séu sáttir við stóra taflborðið.“

Erdoğan (í miðjunni) ásamt Jens Stoltenberg, Sauli Niinistö Finnlandsforseta og Magdalenu Andersson forsætisráðherra Svíþjóðar.
Mynd/EPA

Ögmundur segir að bandalag Bandaríkjamanna við YPG og hernaðarhreyfingar Kúrda í norðanverðu Sýrlandi hafi alltaf verið brothætt. „Í maí endurnýjuðu Bandaríkjamenn áform um vopnasendingar til Kúrda í norðanverðu Sýrlandi, en þetta eru allt vopn til að berjast í návígi gegn ISIS en ekki varnarvopn gegn loftárásum Tyrkja eða gegn drónahernaði þeirra, sem er mikill á þeirra byggðir. Ég held að þegar Bandaríkjamenn gerðu þetta hafi Erdoğan séð sér leik á borði þegar Svíar og Finnar voru annars vegar að gera þetta erfitt með inngöngu þeirra í NATO.“

„En þessi samleið með Bandaríkjunum er aldrei neitt til að treysta á,“ sagði Ögmundur. „Bandaríkjamenn studdu ISIS framan af með vopnum og peningum, þar til ISIS fór að færa sig upp á skaftið og ná í olíu í norðaustanverðu Sýrlandi og Írak. Þá svissuðu þeir um. Við skulum ekki gleyma því að kúrdísku varnarsveitirnar í Norður-Sýrlandi eru af sama meiði og PKK (Verkalýðsflokkur Kúrda), sem eru baráttusamtök Kúrda í Tyrklandi, og þau eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Bandaríkjamenn veittu þessum armi samtakanna í Sýrlandi undanþágu frá þeirri skilgreiningu þegar það hentaði þeim.“

Enginn vilji til verka hjá stjórnvöldum

Ögmundur segir jafnframt að útspil Erdoğans gagnvart NATO-umsóknum Finna og Svía tengist stöðu hans innan Tyrklands, sem sé ekki traust í aðdraganda kosninga á næsta ári vegna bágs efnahagsástands þar í landi. „Þetta er það sem hann er alltaf að föndra við. Hann veit að með því að sýna hörku gagnvart Kúrdum höfðar hann til öfga í Tyrklandi gegn þeim. En þar kyndir hann bálið og pólaríserar samfélagið, sem er hræðilegur hlutur. Það sem NATO hefði átt að gera var að segja honum hreint út að vera ekki með hótanir. En í staðinn setjast þeir við samningaborð og lýsa því yfir frá fyrsta degi að þetta hljóti að vera allt auðleysanlegt. Bæði Biden Bandaríkjaforseti, Stoltenberg og ríkisstjórnir Svía og Finna gera það. Það er verið að styrkja Erdogan í sessi en Kúrdunum finnst þeir illa sviknir.“

Ögmundur segist ekki hafa orðið var við vilja til að tala máli Kúrda hjá íslenskum stjórnvöldum. „Ég held að þetta sé allt í nösunum á þessum norrænu þjóðum og þar með Íslendingum. Því miður, því þetta er málstaður sem okkur ber að verja og sýna stuðning. Ég er alveg sannfærður um það að eftir að hafa fylgst með mannréttindabaráttu Kúrda um árabil að á Íslandi er verulegur stuðningur við Kúrda og þeirra baráttu.“

„Það hefði verið eðlilegt ef íslensk stjórnvöld hefðu látið frá sér heyra á mjög afdráttarlausan hátt og ekki mjálma einhverjum skotum, heldur taka afstöðu með Kúrdum. Við áttum náttúrlega aldrei að styðja yfirleitt að Svíar og Finnar gengju í NATO, við hefðum átt að láta aðra um það. Þegar málið var síðan tengt réttindabaráttu Kúrda og augljósum brotum á þeim áttu íslensk stjórnvöld að láta hressilega frá sér heyra. En það hefur því miður ekki orðið raunin.“