Rúnar Björn Herrea Þorkelsson, formaður NPA miðstöðvarinnar, gagnrýnir svör yfirkjörstjórnar í Reykjavík suður við kæru sinni. Hann segir svörin meðal annars villandi og orðalag loðið og telur réttast að einhver sætti ábyrgð.

Yfirkjörstjórn í Reykjavík suður taldi að ekki hefði verið brotið á réttindinum Rúnars Björns né annarra kjósenda sem eru með fötlun.

Rúnar Björn kærði Alþingiskosningarnar meðal annars vegna óþæginda sem hann upplifði í tengslum við fyrirkomulag kosninganna. Hann hafi ekki upplifað sig sem þátttakanda í leynilegum kosningum vegna aðstöðu kjörklefans sem var ætlaður fólki með fötlun.

Þá gagnrýndi Rúnar Björn að ekkert tjald hafi verið á kjörklefanum sem hægt væri að draga fyrir líkt og í öðrum kjörklefum.

Óásættanlegt að gefa fötluðum ekki kost á tjaldi

Í svari yfirkjörstjórnar Reykjavíkur suður við kærunni kom meðal annars fram að „málefnalegar ástæður voru fyrir því að notast ekki við slíkt tjald í kjörklefa sem ætlaður er einstaklingum sem þurfa á hjólastól að halda til að komast leiðar sinnar.“

Meðal ástæðna sem yfirkjörstjórn tók fram í svari sínu var að tjöld geti flækst í hjólastólum.

Rúnar Björn óskar eftir upplýsingum um hvaða málefnalegu ástæður yfirkjörstjórn sé að vísa til.

„Hér skal vísað til þess að ófatlað fólk getur rétt eins flækst í tjöldum og fatlað fólk og það er óásættanlegt að gefa ekki fötluðum kjósendum kost á tjaldi, hvort sem þeir svo nýta sér að draga það fyrir eða ekki,“ segir í útskýringum og viðbrögðum Rúnars Björns við svörum yfirkjörstjórnar.

Hann spyr jafnframt hvort matið byggist á einhvers konar samráði eða samdóma áliti fatlaðs fólks um að vilja ekki tjöld og óskar eftir gögnum um slíkt.

Rúnar Björn segir að hann hefði kosið að hafa tjöld á kjörklefanum og segir það ekki samræmast meðalhófsreglu að sleppa þeim alfarið. Þá þurfi tjöld ekki að ná niður í gólf til að tryggja leynilega kosningu.

Tjöld aldrei staðið kjósendum í hjólastól til boða

Í viðbrögðum yfirkjörstjórnar í Reykjavík suður við viðbrögðum og skýringum Rúnars Björns við fyrra svari þeirra segir að tjöld hafi aldrei verið fyrir kjörklefum fyrir kjósendur í hjólastólum, „ eftir því sem yfirkjörstjórn best veit.“

Þá sé ekki vitað til þess að kvartað hafi verið yfir því fyrirkomulagi áður.

Jafnframt stendur yfirkjörstjórnin við fyrri svör, þar sem fram kemur að uppsetning kjörklefa og aðstaða allra kjósenda við kosningu hafi verið með þeim hætti að kjósandi gæti gætt leyndar um kosningu sína.

Vill að einhver taki ábyrgð

Að sögn Rúnar Björns hefði ásættanleg niðurstaða við kærunni verið viðurkenning á kærunni, að hann hafi ekki fengið rétt til leynilegra kosninga og að aðstæður á kjörstað hafi verið óásættanlegar.

Rúnar Björn segir að hægt væri að ljúka málinu með því að einhver sætti ábyrgð og nefnir að til dæmis væri hægt að beita sekt.

Þá ítrekar hann að það megi aldrei aftur gerast að fatlað fólk fái ekki leynilega kosningu hér á landi. Mikilvægt sé að grípa til aðgerða til að fyrirbyggja sambærileg lögbrot í framtíðar kosningum.