„Kaup á vændi er skilgreint ólöglegt á Íslandi. Ég veit að þetta var erlendis en mér finnst þetta algjörlega gegn því sem þingmaður ætti að standa fyrir,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir talskona Stígamóta vegna skjáskotsins sem Tómas A. Tómasson þingmaður Flokks fólksins deildi í gær.

Tómas deildi í gær á samfélagsmiðlinum Twitter skjáskoti af birtir SMS sam­skiptum á milli sín og ó­nefnds aðila þar sem lítur út fyrir að rædd séu vændis­kaup hans í Bangkok í Tælandi.

„Mér finnst svörin hans þegar hann er spurður út í þetta gefa bara til kynna kvenfyrirlitningu og að verið sé að reyna afvegaleiða málið,“ segir Steinunn og segir að þetta ekki þingmanninum til sóma.

Í gær sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins að flokkurinn stæði við bakið á Tómasi. Hún sagði að það komi hvorki henni né öðrum við að Tómas hafi „sængað hjá konu í Taílandi“ fyrir átta árum.

Ekki einkamál Tómasar

„Við á Íslandi erum búin að skilgreina kaup á vændi sem ofbeldi, svo verður hann uppvís af því sem er skilgreint hjá okkur sem ofbeldi. Það er ekki einkamál manns,“ segir Steinunn og segir að við höfum farið í gegnum hverja Metoo byltinguna á fætur annari til þess að reyna draga ofbeldi út úr skúmaskotum einkalífsins.

„Það hefur ávallt verið baráttumál kvennahreyfingarinnar að átta okkur á að ofbeldi er ekki bara eitthvað einkamál, heldur samfélagslegt vandamál sem þarf að uppræta. Þess vegna finnst mér alvarlegt þegar einhver sem fer fyrir stjórnmálaflokki lítur á þetta sem einkamál hans,“ segir Steinunn og telur hún að það sé augljóst af skilaboðunum að um vændiskaup væri að ræða.

„Mér finnst að þegar stjórnmálamaður verður uppvís að einhverju sem er skilgreint sem ofbeldi að þá sé ekki eðlilegt að lýsa yfir stolti af þeim manni,“ segir Steinunn og bætir við að lokum:

„Ef hann hefði orðið uppvís af einhverri annari tegund ofbeldis þá þætti mér ólíklegt að stjórnmálaleiðtogi myndi segjast vera stoltur af viðkomandi.“