Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í viðtali við Bítið í morgun að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ætti að „taka pokann sinn“ en hún var til viðtals um dýraníð í Borgarfirði þar sem greint hefur verið frá því að nautgripir fái ekki að drekka eða borða. Viðtalið við Ingu er hér.
Inga gagnrýndi það í viðtalinu að MAST grípi ekki til róttækra aðgerða fyrir þær skepnur sem eru þarna að svelta og segist ekki skilja hvað stendur að baki.
„Þetta er dýraníð af svörtustu sort,“ sagði Inga í viðtalinu en tilefni viðtalsins var umfjöllun Vísis í gærkvöldi um grindhoraða nautgripi sem hafa ekkert fengið að borða.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kallaði við lok síðasta mánaðar eftir upplýsingum frá Matvælastofnun um framkvæmd eftirlits og verkferla vegna velferðar dýra þegar grunur leikur á að umráðamenn séu ekki að uppfylla ákvæði laga, hvort sem um er að ræða almennt eftirlit eða samkvæmt ábendingum sem berast stofnuninni.
Í erindi sínu til Matvælastofnunar óskaði hún einnig eftir upplýsingum um hvort stofnunin telji skort á heimildum í lögum til að tryggja velferð dýra og grípa til viðeigandi ráðstafana þegar aðstæður krefjast.
Inga sagði í viðtalinu að það þyrfti að tryggja betur eftirlit með dýrahaldi og að það þyrfti að vera „af hörku en ekki linkind“. Hún sagði að það þyrfti ekki endilega að fjarlægja það frá MAST heldur þyrfti að tryggja að þau geti sinnt því af alvöru.
Hún vill breyta lögunum þannig að það sé hægt að kæra dýraníð beint til lögreglu, ekki í gegnum MAST, og að lögregla beiti sér meira í þessum málum.
„Ráðherra, í rauninni á einhverjum stöðum þá myndi ráðherra sem lætur svona lagað viðgangast á sinni vakt hann myndi einfaldlega taka pokann sinn,“ sagði Inga og að þannig ráðherra væri ekki starfi sínu vaxinn.