Björn Leifs­son, eig­andi World Class, segist þess full­viss um að þrýstingur frá bæjar­stjórnum hafi orðið þess valdandi að yfir­völd hafi á­kveðið að opna sund­staði þann 18. maí næst­komandi en ekki líkams­ræktar­stöðvar.

Í sam­tali við Frétta­blaðið furðar Björn sig á því að hafa ekki fengið neinar upp­lýsingar frá stjórn­völdum um hve­nær hægt verður að opna líkams­ræktar­stöðvar. Hann hafi frétt af fyrir­hugaðri opnun sund­staða í beinni út­sendingu í gær, eins og al­þjóð.

Segir World Class betur í stakk búið til smitvarna

„Ég fékk engan undir­búning. Þeir sögðu mér þetta bara í beinni út­sendingu, það eru engar skýringar gefnar og engin rök. Ég skil ekki hvernig í ó­sköpunum þeir telja ein­hvern mun á því að fara í líkams­rækt eða í Hag­kaup eða sund,“ segir Björn, eða Bjössi í World Class eins og hann er gjarnan þekktur.

Hann bendir á að fyrir lokun hafi sótt­varnir í World Class verið til fyrir­myndar. „Eins og þetta var í restina hjá okkur var allt sprittað í tæklur og tveggja metra reglan virt. Þar fyrir utan þurfum við ekki einu sinni á búnings­klefunum að halda við opnun, þannig ef eitt­hvað erum við mikið betur í stakk búin til að opna heldur en sund­laugarnar. Við fáum engin rök og þeir svara okkur ekki einu sinni,“ segir Björn og vísar þar sérstaklega til Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns. Fréttablaðið reyndi að ná tali af Víði án árangurs.

Björn bendir á að 49.300 manns hafi verið á­skrif­endur með einum eða öðrum hætti að ræktar­stöðvum World Class fyrir sam­komu­bann. Hann segist telja að fleiri stundi því ræktina en sund.

„Ég er með stærstu fjölda­hreyfingu á Ís­landi. Þegar við lokuðum voru þetta 49.300 manns. Það stunda miklu fleiri heilsu­rækt en sund. Það er bara pressa frá bæjar­stjórnum um að opna sundið. Þeir segja sundið svo mikil­vægt fyrir heilsu þjóðarinnar, hvað er þá líkams­rækt?“ segir Bjössi.

„Ég held að það sé ljótt að segja þetta en þetta lið sem stjórnar, hefur aldrei stundað líkams­rækt, en það þarf að komast í pottinn sinn.“

Hann bendir á að nú sé rætt um að opna á ferða­lög milli Norður­landanna vegna lækkandi tölu smita. „Þeir eru að tala um að hleypa Svíunum inn í landið en við megum ekki lifa eigin lífi,“ segir Björn.

Hefur nýtt tímann vel

Björn tekur fram að sá tími sem stöðvarnar hafi verið lokaðar hafi verið nýttur vel til endur­nýjunar. Þannig hafi for­svars­menn World Class ekki rukkað þá sem eru í á­skrift fyrir maí og muni ekki gera það í júní.

„Við rukkum ekki fyrir maí og júní og að mér vitandi eina stöðin sem gerir það. Það borgar enginn á meðan það er lokað. Stað­greidd kort eða tíma­bundin fram­lengjast átómatískt um leið og það opnar. Við rukkuðum apríl en það er af því að reikningarnir voru sendir út fyrir 15. mars,“ segir Björn.

„En ég hef nýtt þennan tíma vel í endur­bætur á stöðvunum. Ætli ég sé ekki með 30-40 iðnaðar­menn í vinnu. Við­skipta­vinir munu sjá gríðar­legan mun. Við höfum slípað gólf, til dæmis bæði í Ögur­hvarfi og á Akur­eyri, endur­nýjað gufur og annað slíkt. Þannig já, það verður gríðar­legur munur.“