Gunnar Alexander Ólafsson, sérfræðingur hollustuhátta hjá Umhverfisstofnun, segir sundlaugagæslu á Íslandi almennt mjög góða. Öryggisgæsla hafi farið batnandi með árunum en því miður hafi það oft verið gert í kjölfar slysa.
„Það hafa verið alls konar aðgerðir í gangi til að auka öryggi sundlaugargesta og ég myndi segja að allir í þessum geira séu meðvitaðir um öryggi gesta,“ sagði Gunnar í Reykjavík Síðdegis í dag.
Þrátt fyrir góða sundlaugagæslu hér á landi þá fór eitthvað úrskeiðis í síðustu viku þegar rúmlega þrítugur maður lét lífið eftir að hafa legið á botni laugarinnar í Sundhöll Reykjavíkur í sex mínútur. Í sundlauginni er viðvörunarkerfi frá Swimeye sem á að senda út viðvörunarmerki eftir 15 sekúndur hið minnsta liggi einhver á botninum. ÍTR hyggst kanna hvort kerfið hafi brugðist þegar slysið varð. Eins segir formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs að þetta sorglega atvik gefa tilefni til að fara kerfisbundið yfir öryggismál í laugum Reykjavíkurborgar.
Þarf að vera stöðug öryggisgæsla
Aðspurður segir Gunnar ekki skylt að hafa slíkan búnað til staðar í sundlaugum hér á landi.
Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum ber öllum sundlaugum að tryggja nauðsynlega lýsingu og öryggiskerfi sem tryggir öryggi undir vatnsyfirborði. Stöðug öryggisgæsla laugarvarðar með gestum í laug þarf að vera til staðar og tryggja þarf laugarverði yfirsýn yfir alla laugina.
„Sund- og baðstaðir skulu hafa laugargæslu. Á sund- og baðstöðum skal ávallt vera laugargæsla meðan gestir eru í laug. Tryggja skal að starfsmenn sem sinna laugargæslu fylgist stöðugt með gestum í laugum og á laugarsvæði og hafi eftirlit og yfirsýn yfir alla hluta laugar og sinni ekki öðru starfi samhliða,“ segir í reglugerðinni. Eins kemur fram:
„Aðstaða starfsmanns sem sinnir laugargæslu skal tryggð með yfirsýn, öryggiskerfi t.d. myndavélum, speglum eða á annan fullnægjandi hátt.“
