Ríkis­fé er illa varið með of ein­hliða markaðs­setningu á svæði ná­lægt höfuð­borginni. Það leiðir til þess að aðrir lands­hlutar stríða annað­hvort við lá­deyðu eða þá að allt hús­næði úti á landi bókast upp og svæði verða upp­seld nokkrar vikur á ári. Þetta segir Þráinn Lárus­son, eig­andi fyrir­tækja í ferða­þjónustu.

Þráinn er með 140-150 manns á launa­skrá nú um stundir. Hann rekur ýmis veitinga­hús og hótel og stað­festir að Austur­land sé upp­selt sem stendur. Hins vegar sé sá galli á gjöf Njarðar að innan nokkurra vikna verði mörgum ferða­þjónustu­fyrir­tækjum lokað, enda enn eftir litlu að slægjast utan háannar. Dreifa þurfi ferða­mönnum miklu betur um landið á árs­grunni og kynna lands­hluta fjær höfuð­borgar­svæðinu betur, skerpa á sér­stöðu hvers fjórðungs.

Hótel Hallormsstaður er dæmi um hótel þar sem hvert herbergi er uppbókað sem stendur. Hótelinu verður lokað í október, því þá eru flestir ferðamenn horfnir.
Fréttablaðið/Aðsent

„Það fæðist enginn er­lendur ferða­maður með þá hugsun að skoða bara Gull­foss og Geysi,“ segir Þráinn. „Það er búið að fara með hundruð milljóna í markaðs­setningu á Reykja­vík og á Suður­landi með opin­beru fé og eins af hálfu stærra fyrir­tækja,“ bætir hann við. „Á meðan fáum við hér fyrir austan kannski fjár­hæð sem nemur kostnaði við eina aug­lýsingu á einni síðu í dag­blaði.“

Þráinn segir að enginn einn geti markaðs­sett heilu lands­hlutana.

„Feiti unginn situr á Suður­landinu og af­étur okkur hin. Nú er þetta á­stand að koma okkur í koll,“ segir Þráinn og vísar til þess að ýmist sé í ökkla eða eyra hvað varði ann­ríkið fyrir austan.

„Vöru­merkið Ís­land er í rauninni ó­nýtt,“ segir Þráinn þar sem Ís­land í dag sé að­eins markaðs­sett sem Reykja­vík og ná­grenni og þar sé að hluta hinu opin­bera um að kenna.

Skarp­héðinn Berg Steinars­son ferða­mála­stjóri segir á­stæðu til að hlusta á gagn­rýni Þráins.

„Það er margt til í þessu hjá Þráni,“ segir Skarp­héðinn.

Skarp­héðinn telur reyndar of­mælt að tala um Ís­land sem ó­nýtt vöru­merki. Sannar­lega megi þó gera betur, leggja meiri á­herslu er kemur að opin­beru fé á markaðs­setningu á fjöl­breyti­leika ó­líkra svæða og lands­hluta. „Austur­land er vita­skuld á margan hátt ó­líkt þeim svæðum sem eru ná­lægt höfuð­borgar­svæðinu,“ segir Skarp­héðinn.

Kannanir sýna að lang­flestir ferða­menn koma til Ís­lands náttúrunnar vegna. Oft er rætt um mikil­vægi þess að opna fleiri gáttir í gegnum Akur­eyri og Egils­staði. Ferða­mála­stjóri segir já­kvæð teikn á lofti hvað varðar milli­landa­flug frá Akur­eyri en um lang­hlaup sé að ræða, mikið markaðs­starf og þolin­mæði.

„Ferða­þjónustu­fyrir­tæki á þessum svæðum þurfa að að­laga sig. Það hefur verið bent á skort á gistingu fyrir norðan en fólk er núna greini­lega að bregðast við,“ segir Skarp­héðinn ferða­mála­stjóri.