„Það styttist í fyrstu hóp-skot­á­rásina hér á landi. 5, 10 eða 15 ár? Ég veit það ekki, en öll rök benda til þess að það styttist,“ segir Ey­þór Víðis­son, lög­gæslu- og öryggis­fræðingur, í opnu bréfi til Al­þingis­manna sem birtist í Frétta­blaðinu í dag.

Í grein sinni bendir Ey­þór á að notkun vopna hafi aukist hér á landi síðustu ár; hnífa­burður sé al­mennur í á­kveðnum hópum, skamm­byssum hafi fjölgað og nú séu hálf- og al­sjálf­virk skot­vopn farin að finnast í hús­leitum. Bendir hann á að lög­reglu­yfir­völd hafi á­hyggjur af þessari þróun.

Fá­rán­leg stað­reynd

„Sú stað­reynd að hér á landi skulu yfir höfuð vera til hálf­sjálf­virk og sjálf­virk vopn er fá­rán­leg. Hvað hefur her­laus þjóð með ríka veiði­hefð að gera við slík vopn? Slík vopn eru hönnuð til að drepa fólk á skil­virkan hátt en ekki villt dýr í náttúrunni og við þurfum þau ekki,“ segir Ey­þór og bætir við: „Þarna komið þið sterk inn, kæra þing­fólk.“

„Það er erfitt að stýra vilja fólks til voða­verka en ég vil frekar sjá slíka árás gerða með hefð­bundnum veiði­riffli en ekki t.d. sjálf­virkum AR-15 sem skýtur 45 kúlum á mínútu og getur borið 30 skota maga­sín.“

Ey­þór vísar í á­kvæði í vopna­lögum þar sem kveðið er á um að lög­reglu­stjóri geti heimilað ein­stak­lingi að eiga og varð­veita skot­vopn sem hefur ó­tví­rætt söfnunar­gildi af „sér­stökum á­stæðum“. Einnig megi eiga tak­markað magn skot­færa fyrir slík vopn, enda hafi vopnin ó­tví­rætt söfnunar­gildi. Í grein sinni bendir hann á að sjálf­virk vopn, með öðrum orðum hríð­skota­byssur, falla hér undir. Það finnst honum fá­rán­legt og mögu­lega stór­hættu­legt.

„Fíkni­efni eru ó­lög­leg og það má því ekki safna þeim. Barna­klám er ó­lög­legt og má ekki safna því. Listinn er lengri. En vopn sem hönnuð eru til að drepa fjölda fólks á mjög skömmum tíma? Jú, það má safna þeim. Af hverju? Af því að þau hafa til­finninga­gildi fyrir safnarann? Getur ein­hver rök­stutt þetta?“

Endur­skoða öryggis­mál í kjöl­far frétta

Ey­þór segir að þeir sem sinna öryggis­málum á fjöl­förnum og opnum vinnu­stöðum séu þessa dagana að endur­skoða hjá sér öryggis­málin í kjöl­far ný­legra frétta af meintri vopna­söfnun tveggja ein­stak­linga og yfir­vofandi hryðju­verka­ógnar. Í dag skipti ekki máli hver niður­staðan af rann­sókn lög­reglu verður.

„Allir sem fylgjast með fréttum finna að það eru að eiga sér stað þjóð­fé­lags­legar breytingar er kemur að vopna­eign og -notkun hér á landi. Viljum við að ís­lenskir vinnu­staðir fari að kenna starfs­fólki sínu að þekkja skot­hvelli úr fjar­lægð til að hægt sé að bregðast tíman­lega við? Það styttist í það að ó­breyttu. Flestar skot­á­rásir af þessu tagi taka u.þ.b. 90-180 sekúndur og tala fallinna á þeim tíma getur skipt tugum á stórum vinnu­stað eða á at­burði.“

Byssu­safnarnar venju­legar mann­eskjur

Ey­þór segir byssu­safnarar eigi sumir hundruð vopna, mörg þannig að þau geta valdið skelfi­legum skaða á mjög skömmum tíma. Ekki mega gleyma því að byssu­safnarar eru venju­legar mann­eskjur sem geta lentí fjár­hags­örðug­leikum, þróað með sér fíkni­vanda, geð­ræn vanda­mál, heila­bilanir eða annað, sem veldur því að við­komandi ætti ekki að vera með vopna­búr í sinni vörslu.

„Hefð­bundið eftir­lit með söfnurum, leyfis­veitingar, vott­orð og annað slíkt er ekki nóg. Ný­legir at­burðir sanna þetta; skot­á­rás á bíl borgar­stjóra, maður skaut ölvaður úr skamm­byssum á Stokks­eyri (hald lagt á 90 skot­vopn), árás á Egils­stöðum þar sem við­komandi var vopnaður m.a. skamm­byssu, morð á Blöndu­ósi og fleiri dæmi sem ekki verða rakin hér,“ segir hann.

Ey­þór bætir við að í þessu sam­hengi sé oft talað um hversu örugg­lega byssu­safnarar geyma vopn sín. Sjálfur kveðst hann hafa unnið sem sér­fræðingur í öryggis­málum í ára­tugi og full­yrðir hann að ekkert rými er svo öruggt að ekki er hægt að brjótast inn í það.

„Svo er líka hægt að neyða fólk til að opna læst rými, nú eða gabba það. Það er gott að rifja upp þá reglu að besta leiðin til að stýra á­hættu er að eyða henni. Að þessi vopn skuli vera til hér á landi er ó­þarfi,“ segir hann.

Boltinn í höndum þing­manna

Ey­þór segir styttast í fyrstu hóp­skot­á­rásina hér á landi og þegar slík árás verður gerð skipti öllu að hún sé ekki gerð með sjálf­virkum vopnum.

„Það er erfitt að stýra vilja fólks til voða­verka en ég vil frekar sjá slíka árás gerða með hefð­bundnum veiði­riffli en ekki t.d. sjálf­virkum AR-15 sem skýtur 45 kúlum á mínútu og getur borið 30 skota maga­sín.“

Ey­þór biðlar til Al­þingis­manna að beita sér fyrir því að þetta gerist ekki hér á landi.

„Þing­fólk, nú er það í ykkar höndum að reyna að koma í veg fyrir fjölda­morð. Breytum vopna­lögum og bönnum byssu­söfnun. Það má kaupa söfnin af þessu fólki á sann­gjörnu verði, farga vopnunum og koma í veg fyrir at­burði eins og við lesum um í öðrum löndum. Ástralar gerðu þetta eftir skot­á­rás í Port Arthur árið 1996 þar sem 35 létust. Ekkert í líkingu við það hefur komið upp þar síðan. Komum í veg fyrir hugsan­legt fjölda­morð á Ís­landi. Þið eruð í dauða­færi að koma í veg fyrir harm­leik af þessu tagi. Nú er boltinn hjá ykkur.“

Frá blaðamannafundi lögreglu á dögunum.
Fréttablaðið/Valli