„Það styttist í fyrstu hóp-skotárásina hér á landi. 5, 10 eða 15 ár? Ég veit það ekki, en öll rök benda til þess að það styttist,“ segir Eyþór Víðisson, löggæslu- og öryggisfræðingur, í opnu bréfi til Alþingismanna sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Í grein sinni bendir Eyþór á að notkun vopna hafi aukist hér á landi síðustu ár; hnífaburður sé almennur í ákveðnum hópum, skammbyssum hafi fjölgað og nú séu hálf- og alsjálfvirk skotvopn farin að finnast í húsleitum. Bendir hann á að lögregluyfirvöld hafi áhyggjur af þessari þróun.
Fáránleg staðreynd
„Sú staðreynd að hér á landi skulu yfir höfuð vera til hálfsjálfvirk og sjálfvirk vopn er fáránleg. Hvað hefur herlaus þjóð með ríka veiðihefð að gera við slík vopn? Slík vopn eru hönnuð til að drepa fólk á skilvirkan hátt en ekki villt dýr í náttúrunni og við þurfum þau ekki,“ segir Eyþór og bætir við: „Þarna komið þið sterk inn, kæra þingfólk.“
„Það er erfitt að stýra vilja fólks til voðaverka en ég vil frekar sjá slíka árás gerða með hefðbundnum veiðiriffli en ekki t.d. sjálfvirkum AR-15 sem skýtur 45 kúlum á mínútu og getur borið 30 skota magasín.“
Eyþór vísar í ákvæði í vopnalögum þar sem kveðið er á um að lögreglustjóri geti heimilað einstaklingi að eiga og varðveita skotvopn sem hefur ótvírætt söfnunargildi af „sérstökum ástæðum“. Einnig megi eiga takmarkað magn skotfæra fyrir slík vopn, enda hafi vopnin ótvírætt söfnunargildi. Í grein sinni bendir hann á að sjálfvirk vopn, með öðrum orðum hríðskotabyssur, falla hér undir. Það finnst honum fáránlegt og mögulega stórhættulegt.
„Fíkniefni eru ólögleg og það má því ekki safna þeim. Barnaklám er ólöglegt og má ekki safna því. Listinn er lengri. En vopn sem hönnuð eru til að drepa fjölda fólks á mjög skömmum tíma? Jú, það má safna þeim. Af hverju? Af því að þau hafa tilfinningagildi fyrir safnarann? Getur einhver rökstutt þetta?“
Endurskoða öryggismál í kjölfar frétta
Eyþór segir að þeir sem sinna öryggismálum á fjölförnum og opnum vinnustöðum séu þessa dagana að endurskoða hjá sér öryggismálin í kjölfar nýlegra frétta af meintri vopnasöfnun tveggja einstaklinga og yfirvofandi hryðjuverkaógnar. Í dag skipti ekki máli hver niðurstaðan af rannsókn lögreglu verður.
„Allir sem fylgjast með fréttum finna að það eru að eiga sér stað þjóðfélagslegar breytingar er kemur að vopnaeign og -notkun hér á landi. Viljum við að íslenskir vinnustaðir fari að kenna starfsfólki sínu að þekkja skothvelli úr fjarlægð til að hægt sé að bregðast tímanlega við? Það styttist í það að óbreyttu. Flestar skotárásir af þessu tagi taka u.þ.b. 90-180 sekúndur og tala fallinna á þeim tíma getur skipt tugum á stórum vinnustað eða á atburði.“
Byssusafnarnar venjulegar manneskjur
Eyþór segir byssusafnarar eigi sumir hundruð vopna, mörg þannig að þau geta valdið skelfilegum skaða á mjög skömmum tíma. Ekki mega gleyma því að byssusafnarar eru venjulegar manneskjur sem geta lentí fjárhagsörðugleikum, þróað með sér fíknivanda, geðræn vandamál, heilabilanir eða annað, sem veldur því að viðkomandi ætti ekki að vera með vopnabúr í sinni vörslu.
„Hefðbundið eftirlit með söfnurum, leyfisveitingar, vottorð og annað slíkt er ekki nóg. Nýlegir atburðir sanna þetta; skotárás á bíl borgarstjóra, maður skaut ölvaður úr skammbyssum á Stokkseyri (hald lagt á 90 skotvopn), árás á Egilsstöðum þar sem viðkomandi var vopnaður m.a. skammbyssu, morð á Blönduósi og fleiri dæmi sem ekki verða rakin hér,“ segir hann.
Eyþór bætir við að í þessu samhengi sé oft talað um hversu örugglega byssusafnarar geyma vopn sín. Sjálfur kveðst hann hafa unnið sem sérfræðingur í öryggismálum í áratugi og fullyrðir hann að ekkert rými er svo öruggt að ekki er hægt að brjótast inn í það.
„Svo er líka hægt að neyða fólk til að opna læst rými, nú eða gabba það. Það er gott að rifja upp þá reglu að besta leiðin til að stýra áhættu er að eyða henni. Að þessi vopn skuli vera til hér á landi er óþarfi,“ segir hann.
Boltinn í höndum þingmanna
Eyþór segir styttast í fyrstu hópskotárásina hér á landi og þegar slík árás verður gerð skipti öllu að hún sé ekki gerð með sjálfvirkum vopnum.
„Það er erfitt að stýra vilja fólks til voðaverka en ég vil frekar sjá slíka árás gerða með hefðbundnum veiðiriffli en ekki t.d. sjálfvirkum AR-15 sem skýtur 45 kúlum á mínútu og getur borið 30 skota magasín.“
Eyþór biðlar til Alþingismanna að beita sér fyrir því að þetta gerist ekki hér á landi.
„Þingfólk, nú er það í ykkar höndum að reyna að koma í veg fyrir fjöldamorð. Breytum vopnalögum og bönnum byssusöfnun. Það má kaupa söfnin af þessu fólki á sanngjörnu verði, farga vopnunum og koma í veg fyrir atburði eins og við lesum um í öðrum löndum. Ástralar gerðu þetta eftir skotárás í Port Arthur árið 1996 þar sem 35 létust. Ekkert í líkingu við það hefur komið upp þar síðan. Komum í veg fyrir hugsanlegt fjöldamorð á Íslandi. Þið eruð í dauðafæri að koma í veg fyrir harmleik af þessu tagi. Nú er boltinn hjá ykkur.“
