Leik­konan Tinna Þor­valds Önnu­dóttir er síður en svo sátt með sam­göngu­mál Reykja­víkur­borgar í vist­vænu þorpi í Gufu­nesi þar sem hún býr. Sam­göngum í og úr hverfinu er mjög á­bóta­vant en eina göngu­leiðin þaðan í strætó er kíló­metra langur grýttur og ó­upp­lýstur veg­slóði.

Reykja­víkur­borg hefur brugðið á það ráð að bjóða í­búum hverfisins upp á strætó­leið niður í Spöng í formi leigu­bíla en panta þarf þjónustuna sér­stak­lega og er hún að­eins í boði á á­kveðnum tíma og með löngum fyrir­vara.

„Hingað hefur verið lögð strætó­leið upp í Spöng með pöntunar­þjónustu - sem er FRÁ­BÆRT - en einungis er hægt að panta ferð á klukku­tíma og stundum tveggja tíma fresti,“ skrifar Tinna á Face­book og bætir við að þetta geri þjónustuna svo til ó­not­hæfa að mörgu leyti.

„...því við þurfum oft að ganga upp klaka­breiðuna í strætó ef við höfum ekki svig­rúm til þess að mæta tveimur tímum of snemma í vinnuna eða koma heim einum og hálfum til tveimur tímum eftir vinnu­tíma.“

Aldrei verið vesen er að vera bíllaus áður

Tinna birti opið bréf til Hjálmars Sveins­sonar, borgar­full­trúa, á Face­book hópnum Sam­tök um bíl­lausan lífs­stíl þar sem hún gagn­rýnir að einungis sé hægt að panta strætó­leiðina niður í Spöng á klukku­tíma eða tveggja klukku­tíma fresti.

„Ég hef í­trekað lent í því að þurfa að labba heim eða upp í Spöng þrátt fyrir að heita megi að það gangi strætó­leið hingað vegna þess að leiðin gekk á tímum sem hentuðu mér svo illa,“ skrifar Tinna.

Hún segir þessa pöntunar­þjónustu strætó henta mjög illa vinnandi fólki og tekur sem dæmi að ef hún ætlaði sér sjálf að nýta hana til að komast í og úr vinnu myndi hún þurfa að mæta tveimur tímum fyrr í vinnuna.

„Það er bjarnar­greiði að bjóða upp á lausn sem er einungis hálf lausn. Lausn sem ekki nýtist. Því spyr ég: Af hverju gengur leið 25 ekki oftar? Á hálf­tíma fresti væri eðli­legt. Enda þarf að panta bílinn fyrir­fram og engin hætta á að neinn fari fýlu­ferð,“ skrifar Tinna og bætir því við að bíl­stjórarnir sjálfir séu nokkuð hissa með þetta fyrir­komu­lag.

Þá finnst Tinnu þetta skjóta skökku við yfir­lýst mark­mið borgarinnar í hverfinu en því er iðu­lega lýst sem um­hverfis­vænu vist­þorpi.

„Og það sem er skrýtnast við þetta allt saman er að þetta hverfi er kynnt sem ein­hvers konar vist­þorp og það hefur aldrei verið vesen að vera bíl­laus fyrir mig - fyrr en ég flutti hingað,“ segir hún.