Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, flutti stuttu fyrir hádegi ræðu sína á flokksstjórnarfundi flokksins sem fram fer á Bifröst í Borgarfirði.

Logi sagði í ræðu sinni að gangverki samfélagsins mætti líkja við reiðhjólaferð. „Til að halda góðu jafnvægi þarftu að vera á hæfilegri ferð - Of mikill hraði veldur því að þú missir stjórn, ef það hægir of á þér verður erfiðara að halda jafnvægi og stopparðu - missirðu jafnvægið og dettur,“ sagði Logi.

Hann sagðist freista þess að teikna upp myndlíkinguna þar sem „helsti hægri stjórnmálaflokkur landsins talar gjarnan um stöðugleika og jafnvægi“. „Við þurfum hins vegar ekki jafnvægi Sjálfstæðisflokksins sem byggir á því að örfáir sitja öðru megin á vegasaltinu, með þorra gæðanna en allur almennings heldur jafnvægi hinum megin,“ sagði Logi, og bætti við að stöðugleiki Sjálfstæðisflokksins byggðist á íhaldssemi og kyrrstöðu.

Þá gagnrýndi Logi jafnframt ríkisstjórnina í ræðu sinni. „Núverandi ríkisstjórn gefur ekki góð fyrirheit um gifturíkt ferðalag. Kjörtímabilið er ekki hálfnað og við stöndum andspænis flókinni vinnudeilu og erfiðri stöðu efnahagsmála,“ sagði formaðurinn. „Stöðugur vinnumarkaður endurspeglast í stórum og smáum  fyrirtækjum, sem búa við öruggt rekstrarumhverfi, heilbrigða samkeppni og geta borgað starfsfólki góð laun.“

Eins snerti formaðurinn á mennta-, jafnréttis- og umhverfismálum, en ræðu hans má lesa í heild sinni hér.