„Það skiptir máli hvernig ísraelsk stjórnvöld sýna sig og hvernig Ísrael reynir að við­halda í­myndinni um allan heim.“ Þetta segir Yaar Dagan Peretz, ísraelskur lög­fræðingur og doktors­nemi við Keele há­skóla í Eng­landi sem er staddur hér á landi. Í dag stóð hann fyrir málstofu í Háskóla Íslands undir yfirskriftinni: Ban­vænir drónar í Ísrael/Palestínu.

Í mál­stofunni fjallaði Yaar um á­hrif tækni­fram­fara á stöðuna í Palestínu, en að hans sögn er megin mark­mið land­töku­ríkja að loka sam­fé­lög inn­fæddra innan búra, landa­mæra og eftir­lits­stöðva og gera inn­fædda að flótta­fólki í eigin landi. Yaar, sem nú er bú­settur í Bret­landi, hefur meðal annars lagt fram stefnu á hendur ísraelska ríkisins fyrir hönd palestínsku þjóðarinnar og veitti flótta­fólki, hælis­leit­endum og öðrum jaðar­settum hópum laga­lega að­stoð, þegar hann var enn bú­settur í Tel Aviv. 

Yaar er nú staddur á Íslandi í fyrsta skipti, en hefur fylgst með um­ræðunni hér á landi síðustu ár. Hann fylgdist til að mynda með um­ræðunni í kringum á­kvörðun Reykja­víkur­borgar að snið­ganga ísraelskar vörur árið 2015 og um­ræðunni sem myndaðist eftir að Ísrael vann Euro­vision í maí í fyrra. Hann styður sjálfur ákall Palestínumanna fyrir sniðgöngu, eða BDS (e. Boycott, divestment and sanctions) og segir orðið hernám vera of vægt til orða tekið um ástandið í Ísrael og Palestínu. 

Fannst alltaf eitthvað vera að samfélaginu

„Ef ég hefði vaxið úr grasi í Ísrael hefði ég kannski verið eins og allir aðrir, farið í herinn, í nám og svo ferðast til Ind­lands,“ segir Yaar í sam­tali við Frétta­blaðið. 

„En, frá tveggja til sex ára bjó ég á Antigua, rétt eftir að eyjan fékk sjálf­stæði. Við vorum bara tvo hvít börn á leik­skólanum og að koma til baka úr þessu marg­menningar­lega sam­fé­lagi, í sam­fé­lag sem miðaði bara við eina frá­sögn af at­burðum(e. narrati­ve), þessa reiði og sjá hvernig allt sam­fé­lagið snerist um að undir­búa börn til að fara í herinn, mér fannst alltaf eitt­hvað vanda­mál vera undir­liggjandi í ísraelsku sam­fé­lagi.“ 

Yaar bjó lengst af í borginni Tel Aviv, þar sem til stendur að halda Söngvakeppni evrópska sjónvarpstöðva í maí.

Segir hann það eflaust hafa skipt sköpum í grunn­bernsku alast upp við önnur gildi, til að mynda þá hug­mynda­fræði að allir séu jafnir burt séð frá lit og trúar­brögðum. „Ég trúði því að allir ættu að eiga rétt á því sama en þetta var öðru­vísi i Ísrael. Þar er hug­mynda­fræðin um að hinir sterku lifi af. Þú sérð þessa hug­mynda­fræði alls staðar. Bara í dag opnaði ég Face­book og sá mynd­band frá einum stjórn­mála­manni á vinstri­vængnum sem sýndi rústir á Gaza-svæðinu 2014 og með slag­orðinu, hinir sterkustu lifa af,“ tekur hann sem dæmi. 

Skipti sköpum að heyra sögur Palestínumanna

Að sögn Yaar skipti það þó mestu máli að hitta Palestínu­­menn og heyra frá­­sagnir þeirra af stöðu mála. 

„Þegar ég heyrði hvað þau höfðu að segja og upp­­lifun þeirra af kúgun og að­skilnaðar­­stefnu, þar sem al­­gjör grunn mann­réttindi eru hundsuð þá skildi ég hvers vegna sam­­fé­lagið mitt var svona brotið og varð strax hluti af þeirra bar­áttu.“ 

Sem fyrr segir hefur Yaar, sem lærði lög­­fræði í Tel Aviv, veitt Palestínu­­mönnum, sem og hælis­­leit­endum frá öðrum löndum, lög­­fræði­að­­stoð. Segir hann þó kerfið allt vera mjög ó­­hlið­hollt Palestínu­­mönnum og það sjáist ber­­sýni­­lega þegar hann stendur við hlið þeirra á mót­­mælum á Vestur­bakkanum. 

„Munurinn er að ef her­­maður beinir byssu að mér er hann með leið­beiningar að skjóta ekki og ef að ég er hand­­tekinn, því ég er ísraelskur gyðingur, þá nýt ég allra for­réttinda sem fylgja lýð­ræðis­­ríki, eins og að hitta dómara eftir sólar­hring,“ segir hann al­var­legur. 

„Á meðan ef Palestínu­­maður er hand­­tekinn við hliðin á mér, til dæmis fyrir að halda á fána á mót­­mælum, getur verið marga mánuði í fangelsi án þess að kæra sé gefin út á hendur honum og jafn­vel þegar hann er kærður þá fer hann fyrir her­dósm­tól, sem er ekki einu sinni ná­lægt því að vera lýð­ræði.“

Neitaði að ganga í herinn

Í Ísrael er herskylda, tvö ár og átta mánuðir fyrir karlmenn og tvö ár fyrir konur. Þó ýmsir séu undanskyldir herskyldu, meðal annars af trúarlegum ástæðum, getur einnig verið erfitt fyrir fólk líkt og Yaar að komast hjá henni. Honum tókst þó að fá undanþágu, með miklum erfiðleikum og bjóst hann allt eins við því að lenda í fangelsi fyrir ákvörðunina. 

„Ég var eiginlega hissa að enda ekki í fangelsi því flestir af vinum mínum sem voru með sömu skoðanir og ég enduðu í fangelsi.“ 

Aðspurður segir hann að það séu þó ekki margir Ísraelar með sömu skoðanir og hann, flestir fari í herinn eða geri sér upp andleg eða líkamleg veikindi til þess að komast undan herskyldu.

„Flestir líta á það sem ég hef talað um sem landráð. Fólk getur orðið mjög reitt þegar ég segi skoðanir mínar,“ segir hann og tekur sem dæmi að eftir greinaskrif um málefni Palestínumanna hafi samnemandi hans ógnað honum með byssu. „Í háskólanumfann ég fyrir kynþáttahatrinu meðal framtíðarlögmanna Ísraels og þegar ég kláraði starfaði ég meðal annars fyrir Palestínumenn fyrir dómstólum, en það er mjög erfitt því réttarkerfið er er ekki hliðhollt þeim.“ 

Segist hann hafa áttað sig á því með tímanum að árangur baráttu fyrir núgildandi dómstólum væri nálægt því að vera engin og ákvað hann því að snúa aftur á skólabekk og flutti til Englands. „Ég vil kenna lögfræði til þess að hafa áhrif á nema, sem í framtíðinni munu komast í lykilstöður, geti sett þrýsting á Ísrael að enda þetta.“  

Segir hernám of vægt til orða tekið

Aðspurður segist Yaar þó vera vongóður með framhaldið og telur að alvöru breytingar á núverandi ástandi séu mögulegar. Telur hann mikilvægt að styðja ákall Palestínumanna eftir sniðgöngu því þar sé á ferðinni friðsamlegt ákall eftir frelsi, jafnrétti og réttlæti, sem séu þrír hlutir sem Palestínumenn eigi rétt á samkvæmt alþjóðalögum. 

„Palestínumenn sem eru fæddir í Ísrael og Palestínu ættu að vera jafnir Ísraelum, sem voru upp til hópa landtökufólk sem fluttu til Palestínu,“ segir Yaar og útskýrir að í slíku jafnrétti ætti fylgja ferðafrelsi, þannig að Palestínumenn á Gaza ættu að hafa möguleikann á að ferðast á Vesturbakkann eða til Jerúsalem. 

„Jafnrétti er líka jafn aðgangur að vatni og rafmagni, sem Palestínumenn hafa ekki og allir þessir hlutir sem við hugsum nú um í tengslum við jafnrétti.“

Þá segir hann hann að orðið hernám sé of vægt til orða tekið miðað við núgildandi ástand í Palestínu. „Þegar við heyrum orðið hernám þá hugsum við um eitthvað tímabundið, en þett er ekki hernám hendur nýlenduverkefni(e. settler colonial project) sem minnir fremur á stöðuna sem var í Suður-Afríku heldur en eitthvað tímabundið. Þegar við tölum um að enda hernámið þá þýðir það að Palestínumenn séu frjálsir með öllu frelsinu sem Ísraelar hafa verið með síðan 1948.“

Palestína ekki einangrað fyrirbæri

Sem fyrr segir fjallaði málstofa Yaar um hvernig ísraelski herinn notar flyggildi, eða dróna, í hernaði sínum í Palestínu. Doktorsverkefni hans snýr að miklu leyti að málefninu en að hans sögn skoðar hann hvernig fólk er afmanneskjuvætt í hernaði, bæði með notkun dróna og með mikilli fjarlægð.

„Við þurfum að tala um það hvers vegna það er svo mikilvægt fyrir Ísrael að nota þessa tækni. Samfélagið er nýlendusamfélag sem vinnur að því að taka yfir land af innfæddum,“ segir hann. „Svo já, rannsóknin mín snýr að mörgum þáttum en ég beini sjónum mínum að banvænum drónum og hvernig Palestínumenn eru afmanneskjuvæddir með þeim.“ 

Segir hann mikilvægt að sýna fram á hvernig nýlendustefna í Palestínu sé ekki einangrað fyrirbæri heldur hafi svipað verið upp á teninginn í Suður-Afríku, Ástralíu og Bresku-Kólimbíu. „Þetta sýnir hvernig síónismi(e. zionism) er hluti af stærra fyrirbæri og það gerir okkur auðveldara að skilja hann og breyta, en þetta, sem margir líta á sem aðskilnaðarstefnu, mun enda,“ segir hann fullviss.

Vill að Íslendingar sniðgangi Eurovision. 

Mikil um­ræða vaknaði hér á landi eftir sigur hinnar ísraelsku Netu Barzilai með lagið Toy í Euro­vi­son í fyrra. Hátt í þrjá­tíu þúsund skrifuðu undir á­skorun þar sem RÚV var hvatt til þess að snið­ganga keppnina. Aðrir voru ekki á sama máli og telja keppnina eiga að standa utan stjórnmála. Ís­land mun taka þátt í keppninni, sem haldin verður í borginni Tel Aviv í maí á þessu ári. Blaða­manni leikur for­vitni á að vita hvað Yaar finnst um að keppnin sé haldin í Ísrael og hann taki undir ákall um sniðgöngu.

„Þegar ég sá undir­skriftar­listann á Ís­landi um að snið­ganga Euro­vision varð ég bæði glaður og stolur af þeirri stað­reynd að Ís­lendingar séu með svona sterka rétt­lætis­kennd. Ég styð sjálfur þetta á­kall, en þegar þú ferðast til Ísrael til að syngja eða horfa á keppnina, njóta og djamma, þá eru á sama tíma börn í gettóum, hvorki með vatn, mat, raf­magn, drauma eða fram­tíð, með á­falla­streitu­röskun eftir sprengingar og fjöl­skyldu­með­limi sem eru myrtir eða í fangelsi,“ segir hann. 

„Þetta er fólkið sem hefur búið í þessu landi kyn­slóð eftir kyn­slóð en Ísrael breytti í flótta­menn innan eigin landa­mæra. Þau geta ekki ferðast, hvort sem þau eru á Vestur­bakkanum eða Gaza, keypt miða eða horft á keppnina á meðan ísraelskt land­töku­fólk á Vestur­bakkanum geta keyrt á um það bil 25 til 50 mínútum á þessa tón­leika og notið þeirra.“ 

Segir hann sigur Ísraels í keppninni vera mikinn þjóðar­sigur og fyrir stjórn­völdum þar í landi sé þetta mun meira en bara menningar­við­burður. „Það skiptir máli hvernig ísraelsk stjórnvöld sýna sig og hvernig Ísrael reynir að við­halda í­myndinni um allan heim,“ segir hann og bætir við: „Ef þú stendur með þeim sem eru kúgaðir og vilt styðja þau til í baráttu fyrir frelsi og jafn­rétti í þeirra eigin landi er ein leið að segja nei við ísraelskan þjóð­ernis­fögnuð eins og Euro­vision sem stjórn­völd nota til að breyta brotinni í­mynd landsins.“