Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stjórnmál vera harkalegan bransa og þurfa einstaklingar sem starfa innan stjórnmálaheims að lifa við mikið áreiti. Hún segir einnig tækifærin milli kynjanna vera ójöfn í stjórnmálum og að við búum enn í heimi þar sem karlmenn eru líklegri til að vera við völd en konur.
Katrín lýsir góðum kynnum sínum við fráfarandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacindu Ardern, við Fréttablaðið og segir að Ísland hafi átt gott samstarf við þjóðina þrátt fyrir mikla fjarlægð milli landanna tveggja.
„Samstarfið hefur snúist fyrst og fremst um að mæla samfélög út frá öðrum mælikvörðum en bara þessum efnahagslegu og Jacinda hefur mér þótt vera með mjög framsækna og flotta pólitík í þeim efnum,” segir Katrín.
Ráðherra bætir við að hún hafi verið mjög flottur leiðtogi í ljósi erfiðra aðstæðna á valdatíð hennar. Jacinda tók við forsætisráðherraembætti árið 2017 þegar hún var aðeins 37 ára gömul og síðan þá hefur hún glímt við heimsfaraldur, náttúruhamfarir og hryðjuverka árásir.
„ Hún hefur verið mjög flottur leiðtogi, hefur alltaf komið til dyranna eins og hún er klædd og er almennileg manneskja sem er gaman að tala við,” segir Katrín en bætir við að stjórnmál séu harkalegur heimur og auðvelt er fyrir fólk að brenna hratt upp.