Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra segir stjórn­mál vera harka­legan bransa og þurfa ein­staklingar sem starfa innan stjórn­mála­heims að lifa við mikið á­reiti. Hún segir einnig tæki­færin milli kynjanna vera ó­jöfn í stjórn­málum og að við búum enn í heimi þar sem karl­menn eru lík­legri til að vera við völd en konur.

Katrín lýsir góðum kynnum sínum við frá­farandi for­sætis­ráð­herra Nýja-Sjá­lands, Ja­cindu Ardern, við Frétta­blaðið og segir að Ís­land hafi átt gott sam­starf við þjóðina þrátt fyrir mikla fjar­lægð milli landanna tveggja.

„Sam­starfið hefur snúist fyrst og fremst um að mæla sam­fé­lög út frá öðrum mæli­kvörðum en bara þessum efna­hags­legu og Ja­cinda hefur mér þótt vera með mjög fram­sækna og flotta pólitík í þeim efnum,” segir Katrín.

Ráð­herra bætir við að hún hafi verið mjög flottur leið­togi í ljósi erfiðra að­stæðna á valda­tíð hennar. Ja­cinda tók við for­sætis­ráð­herra­em­bætti árið 2017 þegar hún var að­eins 37 ára gömul og síðan þá hefur hún glímt við heims­far­aldur, náttúru­ham­farir og hryðju­verka á­rásir.

„ Hún hefur verið mjög flottur leið­togi, hefur alltaf komið til dyranna eins og hún er klædd og er al­menni­leg manneskja sem er gaman að tala við,” segir Katrín en bætir við að stjórn­mál séu harka­legur heimur og auð­velt er fyrir fólk að brenna hratt upp.