Stríðið í Úkraínu kostar mikið, en kostnaðurinn við að gefa yfir­völdum í Rúss­landi það sem þau vilja er meiri, þetta segir Jens Stol­ten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO. Hann sagði Vestur­löndin verða að undir­búa sig við að halda á­fram að styðja Úkraínu í stríði sem gæti staðið yfir í mörg ár. BBC greinir frá þessu.

Stol­ten­berg er ekki sá eini sem varað hefur við þessu. Boris John­son varaði einnig við lang­varandi stríði í Úkraínu. Þeir eru báðir sam­mála því að vopna­sendingar Vestur­landa til Úkraínu geri sigur Úkraínu­manna lík­legri.

„Við verðum að undir­búa okkur undir það að stríðið staðið í ár. Við megum ekki gefast upp við að hjálpa Úkraínu,“ sagði Stol­ten­berg í sam­tali við þýska dag­blaðið Bild.

Síðustu vikur hafa her­sveitir Úkraínu og Rúss­lands tekist á í austur­hluta Úkraínu, þá sér­stak­lega Donbas-héraðinu. Stol­ten­berg sagði sendingar þróaðra vopna geta frelsað Donbas-héraðið.

Yfir­völd í Úkraínu hafa talað fyrir frekari aukningu í vopna­sendingum til landsins ef Úkraínu á að takast að sigra Rússa. Olek­sy Resni­kov, varnar­mála­ráð­herra Úkraínu, kallaði eftir því í síðustu viku á fundi í Brussel í Belgíu, hann segir úkraínska herinn hafa fengið brota­brot af því sem þau þurfa. .

Yfir­völd í Rúss­landi hafa gagn­rýnt vopna­sendingar aðildar­ríkja NATO til Úkraínu. Sergei Lavrov benti á að af­skipti sam­bandsins af Úkraínu hefði verið á­stæða inn­rásarinnar til að byrja með.