Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, segir þá sem fylgst hafa með stjórnmálum lengi hafa séð þá Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, elda grátt silfur í mörgum stórum málum. 

Sigmundur birti í gær aðsenda grein í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „Misnotkun Alþingis“ þar sem hann sakaði Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis um hefndarþorsta. Sagði hann Steingrím ekki reyna að rannsaka brot á lögum, heldur hefna sín á Sigmundi persónulega. Vísaði hann í þá ákvörðun að kosið væri ný forsætisnefnd sem verður skipuð þingmönnum til að koma Klaustursmálinu í farveg og jafnvel vísa því til siðanefndar. 

Sigmundur og Steingrímur miklir andstæðingar

Steingrímur var í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi umrædda grein. „Þeir sem hafa fylgst með stjórnmálum undanfarinn áratug hafa nú fylgst með okkur elda grátt silfur í mörgum stórum málum þar sem hann hefur talið sig fara illa út úr niðurstöðunni af því að dæma hvernig hann hefur brugðist við, reiðst mjög. Ég nefni nokkur þessara atriða sem eru atriði sem Steingrímur J. Sigfússon ætti kannski að biðjast afsökunar á frekar en að biðjast afsökunar fyrir hönd einhverra annarra,“ sagði Sigmundur, en sagði að hin stóru átakamál á árunum eftir hrun hafa lagt línurnar um það sem koma skyldi. 

„Við vorum miklir andstæðingar. Byrjaði með því að mér fannst hann svíkja það loforð sem hann gaf þegar minnihlutastjórnin gekk til starfa til þess að taka á skuldavanda heimilanna og í rauninni svíkja heimili landsins.“ 

Sagði hann hörð átök hafa verið í mörgum stórum málum og þeim hafi lokið með þeim hætti sem Steingrími hafi ekki verið að skapi. Þar að auki hafi hann ekki verið ánægður með niðurstöður kosninganna 2013. „Viðhorf hans til mín eru myndi ég segja þekkt, menn hafa heyrt hann tjá sig um mig marg oft en það þýðir samt ekki að hann megi notfæra sér stöðu sína sem forseti Alþingis í einhverri prívat herferð.“

Einn mesti popúlisti íslenskra stjórnmála

Aðspurður hvers vegna málið væri persónulegt, þegar þjóðin fór á annan endan í kjölfar Klaustursmálsins sagði Sigmundur það breytti því ekki að þingforseti gæri ekki brotið lög. „Þú getur ekki breytt ekki aðeins hefðum heldur gengið gegn lögum og stjórnarskrá í tilraunum þínum til þess að taka einhvern hóp fyrir með öðrum hætti en aðra. 

Þá hlýtur maður líka að ætla að bera málin saman. Þú segir „fór á annan endann“ og ef að það er þá nýja viðmiðið, þegar það tekst að setja hlutina á annan endann en ekki raunverulegar staðreyndir mála og lögin, þá erum við komin á  mjög hættulegan stað sem þjóðfélag. Því það er einmitt þegar hlutirnir hafa farið á annan endann og menn ákveða af þeim sökum að líta fram hjá lögum og ganga á hlut einhverra hópa í krafti þess að allt fór á annan endann, þá erum við komin á hættulegan stað.“

Sagði hann einnig fleiri skýringar á því hvernig forsetinn gengi fram. „Hann er popúlisi, einhver mesti popúlisti íslenskra stjórnmála að mínu viti. Svoleiðis þetta hefur örugglega haft áhrif á hann líka. Hann er harður vinstri maður og sér þarna tækifæri fyrir sinn hóp.“