„Það eru alvarleg mistök halda áfram með starfsmatskerfið til jafnlaunavottunar sem Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri vinna að. Kerfið er ónothæft og fangar hvorki eðli né inntak læknastarfsins,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands. Læknafélagið sendi frá sér harðorða ályktun um málið á aðalfundi sínum nýverið.

Landspítalinn er meðal þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem þurfa lögum samkvæmt að fá jafnlaunavottun fyrir áramót. Reynir segir að læknar fagni því almennt að passað sé upp á að laun kynjanna séu jöfn, vandinn við kerfið sem Landspítalinn sé að innleiða er að í því er ekki gert ráð fyrir læknum og þeirra menntun. Kerfið sé fengið frá breska heilbrigðiskerfinu, NHS, en þar nær kerfið ekki til lækna. Unnið sé að því innan spítalans að aðlaga það.

„Grunnurinn í kerfinu er gallaður og hefur ekki verið lagaður við svokallaða aðlögun. Það kom fram við frumprófun, Landspítalinn hefur viðurkennt það. Kerfið ber þess augljós merki að enginn læknir hafi komið nálægt því. Sem dæmi, sérfræðilæknir með langa menntun að baki er metinn eins og hann sé með minni menntun en einhver með doktorspróf á öðru sviði,“ segir Reynir. „Byrjuðum að gera athugasemdir við þetta í febrúar. Við höfum fundað margoft með stjórn Landspítalans en það hefur ekkert þokast áfram í því.“

Reynir Arngrímsson, formaður LÍ

Telur hann hættu á því að þar sem kerfið verði til frambúðar að það verði notað til launaviðmiðunar í stofnanasamningur. „Það er ótækt að læknar fari inn í slíkt með skekkt virði okkar starfa og við getum ekki samið um okkar kaup, heldur sé það samið af mannauðsskrifstofu og vottunaraðila úti í bæ.“

Varðandi kostnaðinn við kerfið segir Reynir það geta hlaupið á allt að hundrað milljónum króna, fyrir utan vinnutap heilbrigðisstarfsfólks við að mæta á fundi vegna þess. Hafi hann talað fyrir innleiðingu annarra kerfa, sem aðrar heilbrigðisstofnanir séu að innleiða, en talað fyrir daufum eyrum.

Unnið er að því þessa dagana af hálfu mannauðsskrifstofu spítalans að kalla inn starfsfólk til að láta meta það inn í kerfið, hvetur Læknafélagið lækna til að taka ekki þátt í slíku. „Það var verið að kalla starfsfólk inn á vinnustofur vegna þessa kerfis föstudaginn þrettánda síðastliðinn, daginn sem allt ætlaði að fara á hliðina hérna á spítalanum, þá var mannauðssviðið að kalla til tugi lækna,“ segir Reynir.

„Það er vandséð hvernig spítalinn, hvað þá læknar, getum réttlætt að taka þátt í þessu þegar staðan er svona á spítalanum. Eins og skurðlæknarnir töluðu um, búið að skipuleggja aðgerðir langt fram í tímann og ótal manns að bíða, þeir sögðu bara nei.“