„Við erum að vonum mjög ánægð með þetta fjárframlag og erum þegar farin af stað. Fyrsta skrefið var að birta auglýsingamyndband á heimasíðu okkar, ns.is, þar sem við vekjum athygli á njósnum á netinu,“ segir Breki og bætir við að slíkar njósnir séu víðtækari en fólk grunar.
„Þetta er orðið það algengt að NATO er farið að skilgreina söfnun upplýsinga á netinu sem þjóðarógn. Til dæmis er Austurríki búið að banna þarlendum vefsíðum að nota Google Analytics, sem nánast hver einasta íslenska vefsíða notar, þar á meðal heimasíður Alþingis og Stjórnarráðsins,“ segir hann.
Breki segir verkefnið á fyrstu stigum þessa dagana en að áætlanir standi til að vinna ötullega að því að fræða almenning út allt árið.
„Á næstu mánuðum munum við koma fram með leiðbeiningar um netsvindl og netverslun. Netið hefur í för með sér ýmsar hættur og oft gleymum við eða áttum okkur ekki á þessari gígantísku söfnun á upplýsingum um okkur,“ segir Breki.
Leikir á Facebook eru að sögn Breka gott dæmi um njósnir. „Með því að taka þátt ertu oft að gefa aðgang að þér og þínum upplýsingum, sem einhverjir aðilar geta þá tekið saman og nýtt sér,“ segir hann.
Þegar kemur að netsvindli segir Breki það vera að færast í aukana.
„Við erum reglulega að fá inn á borð til okkar ábendingar um að fólk fái tölvupóst þar sem segir að póstsending bíði viðkomandi, en það þurfi bara að greiða ákveðna upphæð. Svo fær það hlekk að greiðslufyrirmælum og áttar sig ekki á því að það er kannski að samþykkja að greiða mikið hærri upphæð, og jafnvel í evrum eða öðrum gjaldmiðlum,“ varar Breki við.
„Þetta er náttúrulega margra milljarða iðnaður sem er sífellt að verða betri og betri. Þetta er ekkert annað en skipulögð glæpastarfsemi sem þarf að vinna gegn,“ heldur Breki áfram. Hann telji neytendur geta gert ýmislegt til að verja sig gegn slíkum brotum.
„Það er nauðsynlegt að fólk kanni vel og vandlega þá slóð sem því er sagt að smella á og spyrji sig: Áttu raunverulega von á sendingu? Og ef svo er, er þetta sú sendingarþjónusta sem þú átt von á? Svo er það líka þannig að ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt, þá er það í flestum tilfellum líklegast raunin,“ segir formaður Neytendasamtakanna.
