„Við erum að vonum mjög á­nægð með þetta fjár­fram­lag og erum þegar farin af stað. Fyrsta skrefið var að birta aug­lýsinga­mynd­band á heima­síðu okkar, ns.is, þar sem við vekjum at­hygli á njósnum á netinu,“ segir Breki og bætir við að slíkar njósnir séu víð­tækari en fólk grunar.

„Þetta er orðið það al­gengt að NATO er farið að skil­greina söfnun upp­lýsinga á netinu sem þjóðar­ógn. Til dæmis er Austur­ríki búið að banna þar­lendum vef­síðum að nota Goog­le Analytics, sem nánast hver einasta ís­lenska vef­síða notar, þar á meðal heima­síður Al­þingis og Stjórnar­ráðsins,“ segir hann.

Breki segir verk­efnið á fyrstu stigum þessa dagana en að á­ætlanir standi til að vinna ötul­lega að því að fræða al­menning út allt árið.

„Á næstu mánuðum munum við koma fram með leið­beiningar um nets­vindl og net­verslun. Netið hefur í för með sér ýmsar hættur og oft gleymum við eða áttum okkur ekki á þessari gígantísku söfnun á upp­lýsingum um okkur,“ segir Breki.

Leikir á Face­book eru að sögn Breka gott dæmi um njósnir. „Með því að taka þátt ertu oft að gefa að­gang að þér og þínum upp­lýsingum, sem ein­hverjir aðilar geta þá tekið saman og nýtt sér,“ segir hann.

Þegar kemur að nets­vindli segir Breki það vera að færast í aukana.

„Við erum reglu­lega að fá inn á borð til okkar á­bendingar um að fólk fái tölvu­póst þar sem segir að póst­sending bíði við­komandi, en það þurfi bara að greiða á­kveðna upp­hæð. Svo fær það hlekk að greiðslu­fyrir­mælum og áttar sig ekki á því að það er kannski að sam­þykkja að greiða mikið hærri upp­hæð, og ­­jafn­vel í evrum eða öðrum gjald­miðlum,“ varar Breki við.

„Þetta er náttúru­lega margra milljarða iðnaður sem er sí­fellt að verða betri og betri. Þetta er ekkert annað en skipu­lögð glæpa­starf­semi sem þarf að vinna gegn,“ heldur Breki á­fram. Hann telji neyt­endur geta gert ýmis­legt til að verja sig gegn slíkum brotum.

„Það er nauð­syn­legt að fólk kanni vel og vand­lega þá slóð sem því er sagt að smella á og spyrji sig: Áttu raun­veru­lega von á sendingu? Og ef svo er, er þetta sú sendingar­þjónusta sem þú átt von á? Svo er það líka þannig að ef eitt­hvað hljómar of gott til að vera satt, þá er það í flestum til­fellum lík­legast raunin,“ segir for­maður Neyt­enda­sam­takanna.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir nauðsynlegt að neytendur séu vel á verði þegar þeir versli á netinu.
Frettabladid / Anton Brink