Landssamband smábátaeigenda telur að nýtt frumvarp um orkuskipti í fiskveiðum stuðli að aukinni samþjöppun í greininni og fækkun smábáta. Frumvarpið opni á frekari stækkun krókaaflamarksbáta og þar af leiðandi fækkun smábáta.
Í dag mega krókaaflamarksbátar vera að hámarki 30 brúttótonn að stærð til að hafa veiðileyfi. Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra opnar á að þessir bátar geti verið allt að 50 prósentum stærri, það er 45 brúttótonn, gangi þeir að minnsta kosti til helminga fyrir vistvænum orkugjöfum.
Landssamband smábátaeigenda bendir á að þegar krókaaflamarksbátar voru stækkaðir úr 15 í 30 brúttótonn árið 2013 hafi það leitt til stórfelldrar fækkunar smábáta og minnkandi vægis einyrkja.
Lýsir félagið áhyggjum sínum af að áfram sé róið í sömu átt til stækkunar.
„LS lýsir undrun sinni á að rekin sé sú stefna í skjóli orkuskipta,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri í umsögn félagsins við frumvarpinu.
Til þess að koma til móts við þessa breytingu sé óhjákvæmilegt að setja inn ákvæði til að efla línuívilnun fyrir handfæraveiðar og tryggja 48 veiðidaga.