Mögu­leg önnur bylgja kórónu­veirufar­aldursins í Evrópu er ekki lengur aðeins möguleg heldur klár stað­reynd að mati yfir­manns sótt­varna Evrópu­sam­bandsins Andreu Ammon. „Að mínu mati er þetta að­eins spurning um hve­nær næsta bylgja kemur og hversu stór hún verður,“ sagði hún í dag.

Ammon er fyrrum ráð­gjafi þýsku ríkis­stjórnarinnar en er nú yfir­maður sótt­varna hjá Evrópu­sam­bandinu. Undan­farið hefur sam­bandið, með Ammon í for­ystu, veitt aðildar­ríkjum sínum ráð til að takast á við heims­far­aldurinn. Ammon var til við­tals hjá breskum fjöl­miðlum í dag og talaði þar tæpi­tungu­laust um á­standið út frá vísinda­legum niður­stöðum.

Langt í hjarðónæmi


„Þegar litið er á eigin­leika veirunnar og tölur yfir ó­næmi íbúa ýmissa ríkja kemur í ljós að veiran er á sveimi í sam­fé­laginu allt í kringum okkur,“ sagði hún. Ó­næmis­tölur sýndu að á bilinu tvö til fjór­tán prósent íbúa flestra ríkja væru búnir að þróa með sér ó­næmi fyrir veirunni, sem þýddi að um 85 til 90 hið minnsta væru enn ber­skjaldaðir. „Ég vil ekki vera að draga upp mynd af ein­hverju heims­enda­á­standi en við verðum að vera raun­sæ. Það er enn ekki kominn tími á að slaka alveg á.“


Ammon til­kynnti það í byrjun mánaðar, 2. maí, að toppi far­aldursins væri náð í Evrópu. Þá var eina landið sem var enn ekki komið alveg svo langt, að hennar sögn, Pól­land. Undan­farna daga hafa ýmis ríki slakað veru­lega á sam­komu- og sam­göngu­tak­mörkunum sínum eftir að greindum smitum fór að fækka. Þá hafa mörg Evrópu­ríki viðrað hug­myndir um að opna landa­mæri sín á ný, að minnsta kosti fyrir ná­granna­þjóðum sínum.

Í sam­tali við breska fjöl­miðla segir Ammon að hennar hlut­verk sé að fylgjast vel með allri af­léttingu tak­markana, gagn­rýna þær ef þörf er á og vera fljót að átta sig á því, ef smitum fer að fjölga á ný, hvað veldur. Hún segir að önnur bylgja far­aldursins sé ekki ó­um­flýjan­leg ef allir fylgi þeim reglum sem eru í gildi og haldi sig í til­ætlaðri fjar­lægð frá öðrum.


En hún segist finna fyrir því að fólk sé farið að slaka heldur mikið á og segir flesta telja að heims­far­aldrinum sé að ljúka. Sú sé raunin alls ekki.

Evrópuríkin vanmátu veiruna

Sam­kvæmt nýjustu tölum hafa tæp­lega 160 þúsund manns látið lífið í Evrópu af völdum CO­VID-19 sjúk­dómsins sem kórónu­verian veldur. Flestir hafa látist í Bret­landi, rúm­lega 35 þúsund, og þá hafa rúm­lega 32 þúsund látist á Ítalíu og 28 þúsund í Frakk­landi. Alls hafa rúm 1,3 milljón smit greinst í Evrópu.


Það var ekki fyrr en seint í janúar að Evrópu­búar fóru að átta sig á því að það væri al­var­leg ó­þekkt veira kominn upp í Kína, sem smitaðist manna á milli. Ammon rifjar upp þegar hún ráð­lagði stjórn­völdum Evrópu­ríkjanna, þann 26. janúar, að styrkja heil­brigðis­stofnanir sínar til að búa sig undir far­aldurinn af ótta við að álag á þeim yrði allt of mikið þegar far­aldurinn brytist út. Sú varð ein­mitt raunin víða, til dæmis í Lom­bar­dy héraði í Norður-Ítalíu, en þangað má rekja felst smit í Evrópu.

Andrea Ammon, yfirmaður sóttvarna Evrópusambandsins.
AFP

„Við lögðum mikla á­herslu á að ríkin þyrftu að endur­bæta að­gerðar­á­ætlanir sínar,“ segir Ammon. „Og sér­stak­lega að það þyrfti að undir­búa spítalana vel fyrir það sem koma skyldi; að nóg væri til af sjúkra­rúmum og nægt pláss á gjör­gæslunum.“


„Ég held að raunin hafi verið sú að stjórn­völd hafi van­metið veiruna og hversu fljótt hún gat breitt úr sér,“ heldur hún á­fram. Hún telur þá að þegar farið verði í saumana á því hvernig út­breiðsla veirunnar varð svona hröð muni koma í ljós að skíða­ferðir fólks í Ölpunum í byrjun mars hafi skipt sköpum. „Vegna þess að í kjöl­farið sáum við að upp voru komin ný smit um alla Evrópu og að flestir sem greindust voru ný­komnir úr skíða­ferðum í Ölpunum.“


„Þessir skíða­skálar eru oftast pakkaðir af fólki og eru full­kominn staður fyrir veiruna. Ég er nokkuð viss um að þetta hafi spilað stórt hlut­verk í út­breiðslu veirunnar um Evrópu.“
Hún segist þá trúa því að bar­áttan við veiruna eigi eftir að verða löng. „Ég veit ekki hvort bar­áttan muni verða til fram­búðar en ég held að veiran muni ekki hverfa á næstunni. Hún virðist hafa að­lagað sig mjög vel að mann­eskjum,“ segir Ammon.