Stein­þór Helgi Arn­steins­son, veitinga­maður og við­burða­haldari, gagn­rýnir sótt­varna­yfir­völd og segir þau ekki taka hags­muni ungs fólks með í myndina þegar á­kvarðanir eru teknar um sam­komu­tak­markanir.

Stein­þór birti ný­lega tíst á Twitter-að­gangi sínum þar sem hann sagði á­kvarðanir sótt­varnar­yfir­valda um að tak­marka opnunar­tíma veitinga- og skemmti­staða til 11 og banna sölu á­fengis í hléi vera „mestu af-því-bara á­kvarðanir sem ég veit um og ná­kvæm­lega engin vísindi á bak­við þær“.

Tístið vakti mikla at­hygli en Stein­þór segist ein­göngu hafa sett það fram út frá hans per­sónu­legu skoðunum á málinu.

„Það hefur ekkert með það að gera að það gangi eitt­hvað illa hjá mér. Þrátt fyrir að ég hafi þurft að af­lýsa tón­leikum í Eld­borg og af­lýsa Inni­púkanum með annars vegar dags fyrir­vara og hins vegar með viku fyrir­vara og tugum annarra við­burða. Ég hef bara lent í þessu eins og allir,“ segir hann.

Steinþór Helgi stofnaði Röntgen árið 2019 ásamt félögum sínum Snorra Helgasyni, Jóni Mýrdal og Ásgeiri Guðmundssyni.
Fréttablaðið/Anton Brink

Reglurnar bera með sér for­ræðis­hyggju

Stein­þór er einn af eig­endum skemmti­staðarins Röntgen auk þess sem hann starfar sjálf­stætt sem við­burða­haldari. Hann segir til­komu hrað­prófanna hafa liðkað mjög fyrir við­burða­haldi en með þeim er nú leyfi­legt að taka á móti allt að 500 gestum í sæti þótt 50 manna sam­komu­tak­markanir séu í gildi. Annað sé þó uppi á teningnum hvað veitinga­rekstur varðar.

„Varðandi veitinga­bransann þá er alveg 100 prósent ljóst að sótt­varna­læknir hefur aldrei átt í neinu sam­tali við veitinga­menn og stjórn­völd í mjög tak­mörkuðu sam­tali. Mikið af þessum reglum bera ein­fald­lega með sér for­ræðis­hyggju. Ég hef líka verið gagn­rýninn á að það er eins og það sé verið að friða sam­visku ein­hverra með því að banna veitinga­sölu í hléi. Þetta hefur bara leitt til þess að fólk er að smygla með sér á­fengi eða mæta allt of fullt,“ segir Stein­þór.

Hann segist vita um fjöl­mörg dæmi um slíkt frá nær öllum stöðum. Dæmi séu um að fólk hafi mætt á jóla­tón­leika með fangið fullt af á­fengi og endað svo ælandi á miðjum tón­leikum.

„Það er verið að setja ein­hverjar svona reglur, til að friða sam­visku fólks en þær eru ekki að skila til­ætluðum árangri. Ég veit ekki alveg hverju þær eiga að skila. Það má líka taka dæmi um regluna að skrá allt fólk niður í sæti á veitinga­stöðum og börum og safna per­sónu­upp­lýsingum.

Sótt­varna­læknir, land­læknir eða smitrakninga­t­eymið hafa hins vegar aldrei óskað eftir því að fá þessar upp­lýsingar frá stöðunum þegar smit hafa komið upp,“ segir Stein­þór og bætir við að þetta hafi leitt til þess að nánast allir staðir séu hættir að láta gesti fylla út þessar upp­lýsingar.

Sárnaði um­mæli heil­brigðis­ráð­herra

Ný­skipaður heil­brigðis­ráð­herra, Willum Þór Þórs­son, sagði í við­tali eftir að hann til­kynnti um fram­lengingu á nú­gildandi sótt­varna­reglum að ekki væri gott að taka á­kvarðanir um fjölda­tak­markanir eða opnunar­tíma skemmti­staða eftir henti­semi. „Það er ekki gott að taka svo­leiðis á­kvarðanir af því bara,“ sagði Willum. Stein­þóri finnst þessi um­mæli heil­brigðis­ráð­herra skjóta skökku við.

„Það sem mér sárnar svo í þessum um­mælum frá heil­brigðis­ráð­herra að það sé ekki hægt að gera hluti „af því bara“, en það er verið að gera hluti „af því bara“. Með fullri virðingu fyrir sótt­varna­lækni, hann er bara að vinna sína vinnu og hefur verið að standa sig vel í því, en það er eins og það séu ekki teknir fleiri hlutir inn í breytuna,“ segir Stein­þór.

Hann bætir við að honum finnist skrýtið að ekki sé oftar leitað á­lits frá fleiri aðilum í sam­fé­laginu eins og lög­reglunni, land­lækni eða hags­muna­aðila. Þá segir hann svona „af því bara“ á­kvarðanir stjórn­valda um nokkra klukku­tíma til eða frá geta skipt tugum prósenta í veltu.

„Í stærra sam­henginu þá er þetta bara enn eitt at­riðið þar sem verið er að níðast á ungu fólki. Þessi aldurs­hópur hefur aldrei verið á jafn lágum launum eða átt jafn lítið af eignum. Það er ný­lega komin út rann­sókn í Banda­ríkjunum varðandi ungt fólk og Co­vid, sem sýnir að þung­lyndi og notkun á geð­lyfjum hefur farið upp um tugi prósenta. Þetta er bitna mest á fólki á mennta­skóla- og há­skóla­aldri. Það er þetta fólk sem er að missa af því að fá að lifa lífinu sínu al­menni­lega,“ segir Stein­þór að lokum.