Steinþór Helgi Arnsteinsson, veitingamaður og viðburðahaldari, gagnrýnir sóttvarnayfirvöld og segir þau ekki taka hagsmuni ungs fólks með í myndina þegar ákvarðanir eru teknar um samkomutakmarkanir.
Steinþór birti nýlega tíst á Twitter-aðgangi sínum þar sem hann sagði ákvarðanir sóttvarnaryfirvalda um að takmarka opnunartíma veitinga- og skemmtistaða til 11 og banna sölu áfengis í hléi vera „mestu af-því-bara ákvarðanir sem ég veit um og nákvæmlega engin vísindi á bakvið þær“.
Tístið vakti mikla athygli en Steinþór segist eingöngu hafa sett það fram út frá hans persónulegu skoðunum á málinu.
„Það hefur ekkert með það að gera að það gangi eitthvað illa hjá mér. Þrátt fyrir að ég hafi þurft að aflýsa tónleikum í Eldborg og aflýsa Innipúkanum með annars vegar dags fyrirvara og hins vegar með viku fyrirvara og tugum annarra viðburða. Ég hef bara lent í þessu eins og allir,“ segir hann.
Hins vegar er rosalega lítið mál að taka saman tölur um hversu skaðleg áhrif þessar aðgerðir hafa á:
— Steinþór Helgi (@StationHelgi) December 7, 2021
- Listamenn
- Menningarhús
- Veitingastaði/bari
- Háskólafólk í hlutastörfum
O.fl.o.fl.
Og já, má líka nefna hlut eins og frelsi fólks. En öllum auðvitað löngu orðið sama um það https://t.co/ItFZCMqrle

Reglurnar bera með sér forræðishyggju
Steinþór er einn af eigendum skemmtistaðarins Röntgen auk þess sem hann starfar sjálfstætt sem viðburðahaldari. Hann segir tilkomu hraðprófanna hafa liðkað mjög fyrir viðburðahaldi en með þeim er nú leyfilegt að taka á móti allt að 500 gestum í sæti þótt 50 manna samkomutakmarkanir séu í gildi. Annað sé þó uppi á teningnum hvað veitingarekstur varðar.
„Varðandi veitingabransann þá er alveg 100 prósent ljóst að sóttvarnalæknir hefur aldrei átt í neinu samtali við veitingamenn og stjórnvöld í mjög takmörkuðu samtali. Mikið af þessum reglum bera einfaldlega með sér forræðishyggju. Ég hef líka verið gagnrýninn á að það er eins og það sé verið að friða samvisku einhverra með því að banna veitingasölu í hléi. Þetta hefur bara leitt til þess að fólk er að smygla með sér áfengi eða mæta allt of fullt,“ segir Steinþór.
Hann segist vita um fjölmörg dæmi um slíkt frá nær öllum stöðum. Dæmi séu um að fólk hafi mætt á jólatónleika með fangið fullt af áfengi og endað svo ælandi á miðjum tónleikum.
„Það er verið að setja einhverjar svona reglur, til að friða samvisku fólks en þær eru ekki að skila tilætluðum árangri. Ég veit ekki alveg hverju þær eiga að skila. Það má líka taka dæmi um regluna að skrá allt fólk niður í sæti á veitingastöðum og börum og safna persónuupplýsingum.
Sóttvarnalæknir, landlæknir eða smitrakningateymið hafa hins vegar aldrei óskað eftir því að fá þessar upplýsingar frá stöðunum þegar smit hafa komið upp,“ segir Steinþór og bætir við að þetta hafi leitt til þess að nánast allir staðir séu hættir að láta gesti fylla út þessar upplýsingar.
Hér kemur hot take og jafnframt bón um að stjórnvöld taki inn í myndina fleiri þætti en bara smittölur þegar teknar eru ákvarðanir um samkomutakmarkanir...
— Steinþór Helgi (@StationHelgi) December 8, 2021
Meðalaldur inniliggjandi á Landspítalanum v/ Covid: 63 ár
Stjórnvöld: Skerðum skólahald og opnunartíma á börum
Ungt fólk: pic.twitter.com/XmmaBZ7Wpr
Sárnaði ummæli heilbrigðisráðherra
Nýskipaður heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, sagði í viðtali eftir að hann tilkynnti um framlengingu á núgildandi sóttvarnareglum að ekki væri gott að taka ákvarðanir um fjöldatakmarkanir eða opnunartíma skemmtistaða eftir hentisemi. „Það er ekki gott að taka svoleiðis ákvarðanir af því bara,“ sagði Willum. Steinþóri finnst þessi ummæli heilbrigðisráðherra skjóta skökku við.
„Það sem mér sárnar svo í þessum ummælum frá heilbrigðisráðherra að það sé ekki hægt að gera hluti „af því bara“, en það er verið að gera hluti „af því bara“. Með fullri virðingu fyrir sóttvarnalækni, hann er bara að vinna sína vinnu og hefur verið að standa sig vel í því, en það er eins og það séu ekki teknir fleiri hlutir inn í breytuna,“ segir Steinþór.
Hann bætir við að honum finnist skrýtið að ekki sé oftar leitað álits frá fleiri aðilum í samfélaginu eins og lögreglunni, landlækni eða hagsmunaaðila. Þá segir hann svona „af því bara“ ákvarðanir stjórnvalda um nokkra klukkutíma til eða frá geta skipt tugum prósenta í veltu.
„Í stærra samhenginu þá er þetta bara enn eitt atriðið þar sem verið er að níðast á ungu fólki. Þessi aldurshópur hefur aldrei verið á jafn lágum launum eða átt jafn lítið af eignum. Það er nýlega komin út rannsókn í Bandaríkjunum varðandi ungt fólk og Covid, sem sýnir að þunglyndi og notkun á geðlyfjum hefur farið upp um tugi prósenta. Þetta er bitna mest á fólki á menntaskóla- og háskólaaldri. Það er þetta fólk sem er að missa af því að fá að lifa lífinu sínu almennilega,“ segir Steinþór að lokum.