Inga Sæ­land, for­maður Flokks fólksins, segist telja að munurinn á Sósíal­ista­flokknum og sínum flokki sé helst sá að þar sé meiri trú­verðug­leiki þó flokkarnir séu líkir mál­efnan­lega. Þetta er meðal þess sem fram kom í þjóð­mála­þættinum Sprengi­sandi á Bylgjunni í morgun þar sem Inga var gestur.

Þar var Inga spurð út í mál­efna­stöðu Flokks fólksins í saman­burði við Sósíal­ista­flokkinn, enda flokkarnir ekki á ó­svipuðum slóðum mál­efna­lega séð. Sósíal­ista­flokkurinn mældist með 5,3 prósent í nýjustu könnun MMR og Flokkur fólksins með 5,5 prósent. Lengi vel mældist Flokkur fólksins með minna fylgi og leit lengi út fyrir að flokkurinn væri ekki með mann inni á þingi, á sama tíma og Sósíalistar hafa mælst með um og yfir 5 prósent síðustu mánuði.

Inga segir að munurinn á flokkunum sé að í Sósíal­ista­flokknum kveði á öðru­vísi tónn.„Með fullri virðingu fyrir okkar góðu fé­lögum í Sósíal­ista­flokknum þá myndi ég segja að það sé svo­lítið öðru­vísi tónn þar. Svo­lítið öðru­vísi lag­lína,“ segir Inga.

„Í Flokki fólksins eru akkúrat ein­staklingar sem hafa búið við þau kjör, búið á þeim stað sem þau eru að berjast fyrir í raun og veru. Á hinum staðnum er kannski ekki alveg jafn mikil trú­verðug­leiki, þó ég fari ekki neitt víðara í það. En fram­tíðin okkar er björt.“

Inga viður­kennir að bar­áttu­mál Flokks fólksins séu á­f­mörkuðu sviði, en flokkurinn láti þó önnur mál sig varða eins og sjávar­út­vegs­kerfið. Í þættinum ræddi Inga jafn­framt bóta­kerfið og gagn­rýndi það að bóta­þegum og eldra fólki væri ekki gert kleyft að vinna hluta­störf án skerðinga.

Myndi reka Karl og Ólaf aftur og aftur

Hún sagði að­spurð engan bil­bug á Flokki fólksins að finna þrátt fyrir að vera einungis tvö á þingi. „Við vorum náttúru­lega fjögur í byrjun, þú veist vel af hverju og rákum helminginn og myndum gera það aftur og aftur og aftur,“ segir Inga og hlær. Vísar hún þar til Klaustursmálsins en þeir Karl og Ólafur gengu í Miðflokkinn eftir það.

Hún segir þing­flokkinn aldrei hafa unnið betur. Við höfum aldrei unnið betur. Það fóru nú fyrst hjólin að snúast þegar við fengum að vinna þarna í friði að okkar mál­efnum. Þannig það er engan bil­bug á Flokki fólksins að vinna, fyrir utan að við erum að fá frá­bæra fram­bjóð­endur,“ segir hún.

Hún segir fram­bjóð­endur verða kynntir á heima­síðu flokksins von bráðar. Fram­bjóð­endurnir séu á öllum sviðum. „Við ætlum að halda svona pínu­litla flug­elda­sýningu í kringum það.“