Olena Selenska, forsetafrú Úkraínu, segir níu ára son þeirra hjóna þrá að verða hermaður, þetta komi einungis til vegna stríðsins í Úkraínu. Hún segir son sinn hafa misst áhugann á þeim áhugamálum sem hann hafði fyrir stríðið. Hún greinir frá þessu í viðtali við NBC News.
„Fyrir stríðið fór sonur minn á þjóðdansaæfingar. Hann spilaði á píanóið. Hann lærði ensku. Hann auðvitað sótti íþróttir,“ segir Selenska. Hún segist ekki geta fengið son sinn til þessa gömlu áhugamála þar sem hann hafi einungis áhuga á hernaði núna.

Selenska mætti fyrir bandaríska þingið í gær þar sem hún óskaði eftir fleiri vopnum til að aðstoða við baráttu Úkraínumanna við Rússa. Hún var send til Bandaríkjanna af eiginmanni sínum, Volodimír Selenskíj sem hefur ekki yfirgefið Úkraínu frá upphafi stríðsins.
Þegar hún ávarpaði Bandaríkjaþing lýsti hún þeim ótta og hættu sem Úkraínumenn lifa við í dag. Hún sagði þá börn vilja komast til baka í hversdagsleikann.
„Það er allt sem ég vil, að sonur minn fái barnæsku sína til baka og að hann njóti lífsins til hins fyllsta,“ sagði hún.
Hungurleikar Rússa
Selenska sagði stríðið, sem er á sínum fimmta mánuði, vera hungurleika Rússa. Hún sagði þá enn fremur að vopnasendingar frá Bandaríkjunum myndu tryggja „sameiginlegan sigur.“
„Við endum niðurbrotin þegar heimi okkar er rústað af stríði. Tugir þúsunda slíkra heima hafa rústast í Úkraínu,“ sagði Selenska en ræða hennar taldi fimmtán mínútur.
„Svarið við árásum Rússa er héna í Washington DC. Hjálpið okkur að stoppa þennan hrylling gegn Úkraínumönnum og þetta verður sameiginlegur sigur okkar,“ sagði hún.