„Sólveig Anna er ótrúleg í að sameina fólk,“ segir Valur Grettisson blaðamaður. Valur var gestur í Fréttavakt föstudagskvöldsins 13. janúar, ásamt Karen Kjartansdóttur ráðgjafa hjá Langbrók. Valur og Karen ræddu fréttir vikunnar og svokallaða „bomber“ jakka samninganefndar Eflingar sem vakið hafa mikla athygli.
„Hún hefur ótrúlega hæfileika hvað það varðar. Hún hefur líka leikræna dramatíska hæfileika. Ef maður lítur dramatúrgískt á þetta, eru þetta oftar en ekki mikil leikrit sem eru sett á svið þegar kemur að þessu öllu saman,“ segir Valur. „Ég veit að þetta er ofboðslega leiðinlegt fréttaefni en ef maður horfir á þetta þannig þá hjálpar það alveg, án gríns. Að maður horfi á þetta sem leikrit.“
Hann segir málið einkennast miklu drama og reiði „Þar af leiðandi er ekkert órökrétt að vera með jakka og sýna sameininguna þar.“
Þá segir Valur að hugsanlega rími bandarískir orrustuflugmannajakkar illa við hugmyndir sósíalistanna.
Ég veit að þetta er ofboðslega leiðinlegt fréttaefni en ef maður horfir á þetta þannig þá hjálpar það alveg, án gríns. Að maður horfi á þetta sem leikrit.
Karen vitnar þá til færslu Jökuls Sólberg athafnamanns af Facebook, sem hún segir vera mikinn aðdáanda Sólveigar Önnu. „Hann sagði að upphaflega væru þeir úr leðri, fyrir orrustuflugmenn, en svo væri gerð ódýrari týpa sem er úr næloni. Svona working class útgáfa.“
Valur svarar að honum þyki klókt að klæðast jökkum sem tengjast orrustum, stríðum og loftárásum, þegar sest er að samningaborðinu. „Mér finnst þetta snilldarleg leið hjá þeim til að þétta raðirnar hjá sér að vera með einkennisbúning. Það er ekkert sem þéttir raðirnar hjá neinum eins og að vera í einkennisbúningi,“ segir Valur og hlær.
„Það vita allir nákvæmlega hvaða skilaboð eru hér á ferðinni,“ segir Karen.