Lögmaður ríkissáttasemjara, Andri Árnason, segir að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafi brotið trúnað við sáttasemjara með því að tjá sig um innihald fundar þeirra á Facebook.
Þetta kom fram í máli Andra í munnlegum málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem félagatalsmálið er til umfjöllunar.
„Ríkissáttasemjari brást ekki við neinum athugasemdum frá mér og sýndi engan vilja til að meðtaka þær, þrátt fyrir að í klukkutíma reyndi ég af mikilli alvöru að koma honum í skilning um hversu hræðileg og röng ákvörðun hans væri,“ segir í Facebook-færslu Sólveigar frá því í lok janúar, sem vísað var í dómsal í dag.
Andri vill meina að allir fundir ríkissáttasemjara og Eflingar séu leynilegir og að ekki sé búist við því að fjallað sé um innihald þeirra opinberlega. Það eigi að gæta trúnaði.
Flóki Ásgeirsson, lögmaður fyrir hönd Eflingar, vill á móti kemur meina að Sólveig sé ekki bundin þagnarskyldu um þennan fund, þar sem hún sé borgari en sáttasemjari stjórnvald.
„Þetta var fundur á milli stjórnvalds og borgara, og auðvitað hvílir engin þagnarskylda á borgaranum varðandi þann fund,“ segir hann.

Að málflutningi loknum gaf Sólveig Anna sig á tal við Fréttablaðið og tók undir orð lögmanns síns. „Að sjálfsögðu er það ekki þannig að ef borgara sé skipað á fund hjá stjórnvaldi að hann sé bundinn trúnaði um það sem þar fer fram. Þetta er ekki eiginlegur samningafundur.“
„Þarna sést enn einu sinni með skýrum hætti hversu veikur allur málatilbúnaður ríkissáttasemjara er,“ segir Sólveig um málið.