Alþingi Enginn þingmaður lýsir andstöðu við þá hugmynd að Ríkisendurskoðun fari í saumana á sölu Íslandsbanka. Salan hefur vakið harðar deilur.

Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er í hópi þeirra þingmanna sem segjast ekki kvíða rannsókn Ríkisendurskoðunar eða þings. Allt tal um að fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hafi viðhaft óeðlileg afskipti sé hrein og klár firra. „Ég óttast ekki rannsókn á þessu ferli, því hér er ekkert að fela,“ segir Guðrún.

Jakob Frímann Magnússon, Flokki fólksins, segir umhugsunarefni hvernig ríkið „eignaðist“ gjaldþrota Glitni eftir hrun og komst upp með að færa til sín kröfur þess á hrakvirði, skipta um nafn og senda þeim sem skulduðu hinu fallna fyrirtæki kröfur allt að helmingi hærri en fólk hafði tekið að láni. „Það væri því réttast, svona í „karmísku“ samhengi, að færa því fólki það sem óselt er af hlutabréfum Íslandsbanka,“ segir Jakob Frímann.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að traust sé mikilvægasta eign hvers banka.

„Þarna eru meðal annars erlendir fjárfestar sem keyptu í fyrstu umferð og seldu sig strax út með umtalsverðan gróða. Á listanum eru líka kunnugleg andlit úr aðdraganda hrunsins. Það er beinlínis ein skilgreiningin á spillingu, að almannagæðum sé úthlutað til útvalinna á ógagnsæjan hátt.“

Bjarkey Gunnarsdóttir, oddviti VG í Norðausturkjördæmi sem situr í ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum, segir að Ríkisendurskoðun þurfi að fara yfir málið áður en meira verði selt.