Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir það ekki standast sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi umhverfisráðherra, sagði í Fréttablaðinu í gær, að boðaðar breytingar á lögum væru rétt viðbrögð við úrskurði ESA um ólögmæta starfshætti stjórnvalda hér.

Auður segir áfram gert ráð fyrir að hægt verði að gefa út bráðabirgðaleyfi án gilds umhverfismats.

„ESA hefur sagt að þetta sé brot á EES-reglum um umhverfismat og kemur því ekki til móts við athugasemdir ESA. Samkvæmt lýsingu í samráðsgátt á frumvarpsdrögunum verða það stofnanir en ekki ráðherrar sem veita bráðabirgðaleyfin og því opnast möguleiki til þess að kæra veitingu þeirra til ráðherra,“ segir Auður. Verði breytingin svipuð og rædd var 2020 verði heimild til veitinga bráðabirgðaleyfa felld inn í lög um umhverfismat.

„Það væri stórt skref aftur á bak því þá myndu bráðabirgðaleyfi án umhverfismats ná til mun fleiri aðgerða sem hafa neikvæð áhrif á náttúru Íslands. Án aðgangs að skjölunum er erfitt að segja hver áhrifin af þessu verða nákvæmlega en það er alveg ljóst að það er ekki í samræmi við niðurstöðu ESA að veita megi bráðabirgðaleyfi án gilds umhverfismats.“