Umboðsmaður Alþingis segir í nýju áliti sínu um öryggisgang réttargeðdeildar að ekki séu til fullnægjandi heimildir í lögum til vistunar á öryggisgangi réttargeðdeildar, eins og því úrræði hefur verið lýst af hálfu Landspítala.

Í álitinu kemur fram að samkvæmt spítalanum felur vistun á öryggisgangi í sér að sjúklingur er aðskilinn frá öðrum sjúklingum og undir viðvarandi eftirliti starfsmanna auk þess sem ýmsar aðrar takmarkanir leiddu af vistuninni, eins og takmörkun á samskiptum, útiveru og fleira.

Álit embættisins er gefið út í kjölfar frumkvæðisathugunar umboðsmanns um um framkvæmd og grundvöll vistunar sjúklinga á svokölluðum öryggisgangi réttargeðdeildar á Kleppi á Landspítala þar sem einkum dvelja menn sem dæmdir hafa verið til vistunar á „viðeigandi hæli“ á grundvelli hegningarlaga.

Þar kemur einnig fram að umboðsmaður telur ljóst af skýringum Landspítala að í vistun á öryggisgangi felst öllu jöfnu íþyngjandi ráðstöfun fyrir sjúkling umfram þær almennu takmarkanir á frelsi sem óhjákvæmilega leiddu af dómi um vistun á „viðeigandi hæli“ samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga.

Slík vistun kynni því undir vissum kringumstæðum að jafngilda sjálfstæðri frelsissviptingu

„Dómsákvæði um „vistun á viðeigandi hæli eða stofnun“ eða ákvörðun stjórnvalda um vistun tiltekins manns á réttargeðdeild gæti því almennt ekki, eitt og sér, talist fullnægjandi lagalegur grundvöllur fyrir ákvörðun um vistun á öryggisgangi um lengra skeið, ekki síst ef um væri að ræða einangrun sjúklings. Slík vistun kynni því undir vissum kringumstæðum að jafngilda sjálfstæðri frelsissviptingu umfram það sem leiddi af dómi,“ segir í áliti umboðsmanns og að um væri að ræða inngrip í stjórnarskrárvarinn rétt sjúklings til friðhelgi einkalífs.

Réttargeðdeild á Kleppi
Fréttablaðið/Anton Brink

Áréttar fyrri tilmæli til ráðherra

Var meðal annatrs horft til þess að með vistun á öryggisgangi væri sjúklingur alla jafnan aðskilinn frá öðrum sjúklingum og samneyti hans og umgengni við aðrar manneskjur og þátttaka félagslífi takmörkuð. Þá væri hann undir stöðugu og viðvarandi eftirliti starfsmanna, eins eða fleiri, og nyti því í reynd lítils af þeim takmörkuðu einkalífsréttindum sem hann myndi að öðrum kosti njóta á réttargeðdeild.

Téður skortur á lagalegri umgjörð og aðhaldi kann að skapa hættu á því að vistun á öryggisgangi verði lengri en efni standa til

Í áliti sínu bendir umboðsmaður á að engar sértækar reglur er að finna í gildandi lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum um nánari málsmeðferð við töku ákvarðana um vistun á öryggisgangi deildarinnar eða möguleikum sjúklings til endurskoðunar.

„Téður skortur á lagalegri umgjörð og aðhaldi kann að skapa hættu á því að vistun á öryggisgangi verði lengri en efni standa til auk þess sem líkur á misbeitingu úrræðisins verða óhjákvæmilega meiri en ella.“

Á vef umboðsmanns segir að umboðsmaður árétti því fyrri tilmæli sín til heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra sem og Alþingis um að tekin verði afstaða til þess hvort og þá með hvaða hætti rétt sé að bregðast við skorti á lagaheimildum.

„…ef á annað borð sé talið nauðsynlegt að viðhafa þá starfshætti á réttargeðdeild Landspítala sem frá er greint, og eftir atvikum á lokuðum deildum annarra heilbrigðisstofnana.“

Þá bendir hann einnig á að það skorti reglur um málsmeðferð vegna vistunar á öryggisgangi. Til að mynda séu engar reglur um skilyrði og tímalengd vistunar eða hverjir séu bærir til að taka ákvörðun þar að lútandi. Hann segir nauðsynlegt sé að búa meðferð þessara mála tryggari og vandaðri umgjörð í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum en nú sé.

Engin heimild til að kæra

Í áliti umboðsmanns kemur fram að Landspítalinn veiti sjúklingum alltaf leiðbeiningar um kæruleiðir og þeir almennt upplýstir um réttindi sín en einnig að þar engar reglur séu í lögum um ákvarðanir um vistun á öryggisgangi sé ekki heimild til að kæra ákvörðun þar að lútandi.

Þá er í álitinu einnig vikið að svokallaðri Kleppsskýrslu umboðsmanns sem kom út árið 2018 vegna heimsóknar á réttargeðdeild, öryggisgeðdeild og sérhæfða endurhæfingargeðdeild. Bent er á í nýju áliti umboðsmanns að ekki hafi ekki verið ráðist í nauðsynlegar lagabreytingar sem bent er á þar en að skipaðir hafi verið starfshópar til að bregðast við auk þess sem breytingar á lögræðislögum séu til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu. Þá segir að spítalinn hafi sjálfur gert ráðstafanir til að mæta ábendingum umboðsmanns.

Hægt er að kynna sér ítarlegt álit umboðsmanns hér á vef embættisins.