Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki haldið áfram í ríkisstjórn sem ríkisvæði heilbrigðiskerfið.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur verið gagnrýnd af sérfræðilæknum sem hafa sagt að núverandi stefna leiði til tvöfalds heilbrigðiskerfis. Því hefur ráðherra hafnað.

Óli Björn er harðorður í grein í Morgunblaðinu í dag.

„Það þarf ekki mikla innsýn eða skilning á stefnu Sjálfstæðisflokksins til að átta sig á því að flokkurinn getur ekki tekið þátt í ríkisstjórn sem heldur áfram að ríkisvæða heilbrigðiskerfið, kemur í veg fyrir samþættingu og samvinnu sjálfstætt starfandi þjónustuaðila og hins opinbera – tekur hagsmuni kerfisins fram yfir hagsmuni sjúkratryggðra (okkar allra) og undirbýr þannig jarðveg fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi, sem er eitur í beinum hvers sjálfstæðismanns,“ segir hann.

Óli Björn, sem skipar fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í kosningunum í haust, setur svo fleiri skilyrði fyrir þátttöku flokksins í ríkisstjórn. Beinir hann þá spjótum sínum að Ríkisútvarpinu. Ekki sé hægt að styðja ríkisstjórn sem haldi sjálfstæðum fjölmiðlum í heljargreipum. „Ríkisrekin fjölmiðlun gengur þvert á hugmyndir hægri manna og grefur undan borgaralegum öflum. Ekki síst þess vegna verður Sjálfstæðisflokkurinn að spyrna við fótum – loksins gæti einhver sagt.“

Fer hann svo út í almennari mál.

„Uppbygging menntakerfisins er eitt. Skynsamleg og sjálfbær nýting náttúruauðlinda annað. Jákvætt viðhorf til atvinnulífsins er skilyrði. Að gera launafólki kleift að taka með beinum hætti þátt í rekstri fyrirtækja er mikilvægt og byggja þannig fleiri stoðir undir fjárhagslegt sjálfstæði heimilanna, er lykillinn að hjarta sjálfstæðismanna.“