Undanfarið hefur verið uppi umræða um bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks víða um heim, til að mynda hafa hinsegin ungmenni hér á landi bent á fordóma og áreiti sem þau hafa orðið fyrir á samfélagsmiðlum. Þá hefur það færst í aukana að ungir karlmenn gelti að hinsegin fólki á götum úti og í síðasta mánuði létust tvær manneskjur og fjöldi fólks slasaðist þegar maður vopnaður byssu skaut á fólk á skemmtistaðnum London Pub í Osló, en staðurinn er vinsæll meðal hinsegin fólks.

Bjarni Snæbjörnsson, leikari, segir á forsíður Helgarblaðs Fréttablaðisins að þrátt fyrir að hér á landi hafi margt áunnist þegar kemur að réttindum hinsegin fólks sé nauðsynlegt að halda baráttunni áfram.

„Gleðin og ástin eru okkar baráttutæki og við verðum að halda áfram. Í samfélaginu okkar er alveg eins og annars staðar mikið um fordóma og forréttindablindu,“ segir Bjarni.

Hann segir að í kommentakerfum og á samfélagsmiðlum er þetta mjög greinilegt. Bakslagið sjáist vel til dæmis í Bretlandi þar sem fordómafull umræða um transfólk sé orðin að pólitísku vopni stjórnmálafólks.

„Svo er til dæmis Sigmundur Davíð, sem nýtir sér þessa fordóma til þess að ná inn atkvæðum með stórundarlegum skoðunum sínum á transmálefnum. Þetta getur ekki viðgengist. Það getur verið mjög hættulegt að gera ekki neitt, sitja hjá og láta sig málin ekki varða og fóðra fordómana,“ segir Bjarni.

„Skeytingarleysið er ekki síður hættulegt. Við verðum öll að standa saman sem samfélag og uppræta mismunun og hatursorðræðu því að dæmin sýna að ljót orð geta fljótt orðið að hnefahöggum eða byssuskotum. Það er raunveruleikinn okkar.”