Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands, segir í yfirlýsingu að bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjabæ hafi brotið gegn grunnréttindum launafólks með því að láta gamla Herjólf sigla milli Eyja og lands í gær.

Tveggja sólarhringa verkfalli undirmanna á Herjólfi lauk á miðnætti og sigldi skipið því ekki þann tíma. Rekstur ferjunnar er á höndum Vestmannaeyjabæjar og var ákveðið að láta gamla Herjólf sigla í gær.

Í yfirlýsingu Jónasar segir að gamla ferjan hafi siglt mönnuð verkfallsbrjótum. Verið sé að nota eigur ríkisins til að beita launafólk lögleysu og ofríki.

„Alvarlegra getur málið ekki verið. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hlýtur að stöðva lögleysu bæjaryfirvalda í Eyjum,“ segir í yfirlýsingu Jónasar.

Náist ekki samningar í kjaradeilunni mun önnur verkfallslota bresta á 21. til 24. júlí.