Eyrún Eyþórsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður Vinstri grænna, hefur sagt sig úr flokknum. Ástæðuna segir hún vera lagafrumvarp sem Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknar, lagði fram um nýverið um þrengingu ákvæðis almennra hegningarlaga um hatursorðræðu.
Frumvarpinu er ætlað að bæta við ákvæði 233. gr. a. innan almennra hegningarlaga, um hatursorðræðu, að háttsemin þurfi að vera til þess fallin „að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun“.
„Þetta er kornið sem fyllir mælinn. Þessi breytingartillaga er algjörlega út í hött,“ segir Eyrún í samtali við Fréttablaðið. Eyrún sat sem varaþingmaður fyrir Vinstri græn, kjörtímabilið 2013 til 2017, og tók sæti á þingi um tveggja vikna skeið í nóvember 2014. Í dag er hún aðjúnkt í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri en hafði áður sinnt starfi lögreglufulltrúa þar sem hún fór fyrir rannsóknum á hatursglæpum.
Birtingarmynd á veruleikanum
Hún hefur því fylgst vel með hatursorðræðu hér á landi, farið fyrir lögreglurannsóknum á henni en einnig rannsóknum á viðfangsefninu á hinu akademíska sviði háskólans.
„Það er ekkert að koma á óvart það sem er búið að vera að gerast undanfarna daga,“ segir hún og vísar til þeirrar orðræðu sem uppi hefur verið í garð flóttafólks sem mótmælt hefur á Austurvelli að undanförnu.
„Þetta er bara birtingarmynd á veruleikanum. En það sem er kannski ánægjulegast við þetta er að maður er farinn að finna að fleiri eru farnir að tala gegn þessu og óska eftir að það eitthvað verði gert,“ segir Eyrún.
„Það er bara óraunhæft að tjáningarfrelsi geti verið það frjálst að það hafi engar skorður.“
Einnig segir hún rannsóknir sýna að fólk sé farið að nota tjáningarfrelsishugtakið sem réttlætingu á rasisma. „Þannig alltaf þegar þú setur fram rasisma og einhver mótmælir því þá kemurðu og segir: „Bíddu, það er verið að ráðast á tjáningarfrelsið mitt“.“

Tjáningarfrelsi notað sem vopn
Þá snúist umræðan ekki um tjáningarfrelsið. Hugtakið sé orðið að „vopni“ í höndum þeirra sem leggja fram fordómafulla tjáningu. „Þessu fólki er ekki umhugað um tjáningarfrelsi. Þeim er umhugað um að fá, í friði, að setja fram hatursfulla tjáningu.“
Samtökin '78 hafa harðlega gagnrýnt lagafrumvarpið sem um ræðir. Þau segja að fjöldi félagsmanna hafi sett sig í samband við þau og lýst yfir áhyggjum yfir óöryggi sínu vegna fyrirhugaðra breytinga. Þá hefur ASÍ ályktað gegn frumvarpinu.
Sjá einnig: Hatursorðræða „ekki bara eitthvað bull“
Eyrún vísar til tveggja dóma Hæstaréttar sem féllu árið 2017 um hatursorðræðu í garð hinsegin fólks. Dómarnir sem um ræðir féllu vegna kæru samtakanna. Einnig vísar hún til dóms Hæstaréttar frá 2002 þar sem dæmt var fyrir kynþáttaníð. Eyrún segir ljóst að hafi ákvæðið sem til stendur að breyta verið þannig þegar málin voru tekin fyrir hefði Hæstiréttur líklegast ekki dæmt líkt og hann gerði.
„Þar er ekki verið að hvetja til ofbeldis heldur bara verið að smána.“