Ey­rún Ey­þórs­dóttir, fyrr­verandi vara­þing­maður Vinstri grænna, hefur sagt sig úr flokknum. Á­stæðuna segir hún vera laga­frum­varp sem Sig­ríður Á. Ander­sen, fyrr­verandi dóms­mála­ráð­herra í ríkis­stjórn Sjálf­stæðis­flokksins, Vinstri grænna og Fram­sóknar, lagði fram um ný­verið um þrengingu á­kvæðis al­mennra hegningar­laga um hatur­s­orð­ræðu. 

Frum­varpinu er ætlað að bæta við á­kvæði 233. gr. a. innan al­mennra hegningar­laga, um hatur­s­orð­ræðu, að hátt­semin þurfi að vera til þess fallin „að hvetja til eða kynda undir hatri, of­beldi eða mis­munun“. 

„Þetta er kornið sem fyllir mælinn. Þessi breytingar­til­laga er al­gjör­lega út í hött,“ segir Ey­rún í sam­tali við Frétta­blaðið. Ey­rún sat sem vara­þing­maður fyrir Vinstri græn, kjör­tíma­bilið 2013 til 2017, og tók sæti á þingi um tveggja vikna skeið í nóvember 2014. Í dag er hún aðjúnkt í lög­reglu­fræðum við Há­skólann á Akur­eyri en hafði áður sinnt starfi lög­reglu­full­trúa þar sem hún fór fyrir rann­sóknum á haturs­glæpum. 

Birtingarmynd á veruleikanum

Hún hefur því fylgst vel með hatur­s­orð­ræðu hér á landi, farið fyrir lög­reglu­rann­sóknum á henni en einnig rann­sóknum á við­fangs­efninu á hinu akademíska sviði há­skólans. 

„Það er ekkert að koma á ó­vart það sem er búið að vera að gerast undan­farna daga,“ segir hún og vísar til þeirrar orð­ræðu sem uppi hefur verið í garð flótta­fólks sem mót­mælt hefur á Austur­velli að undan­förnu. 

„Þetta er bara birtingar­mynd á veru­leikanum. En það sem er kannski á­nægju­legast við þetta er að maður er farinn að finna að fleiri eru farnir að tala gegn þessu og óska eftir að það eitt­hvað verði gert,“ segir Ey­rún. 

„Það er bara ó­raun­hæft að tjáningar­frelsi geti verið það frjálst að það hafi engar skorður.“ 

Einnig segir hún rann­sóknir sýna að fólk sé farið að nota tjáningar­frelsis­hug­takið sem rétt­lætingu á ras­isma. „Þannig alltaf þegar þú setur fram ras­isma og ein­hver mót­mælir því þá kemurðu og segir: „Bíddu, það er verið að ráðast á tjáningar­frelsið mitt“.“ 

Tjáningarfrelsi notað sem vopn

Þá snúist um­ræðan ekki um tjáningar­frelsið. Hug­takið sé orðið að „vopni“ í höndum þeirra sem leggja fram for­dóma­fulla tjáningu. „Þessu fólki er ekki um­hugað um tjáningar­frelsi. Þeim er um­hugað um að fá, í friði, að setja fram haturs­fulla tjáningu.“ 

Sam­tökin '78 hafa harð­lega gagn­rýnt laga­frum­varpið sem um ræðir. Þau segja að fjöldi fé­lags­manna hafi sett sig í sam­band við þau og lýst yfir á­hyggjum yfir ó­öryggi sínu vegna fyrir­hugaðra breytinga. Þá hefur ASÍ á­lyktað gegn frum­varpinu. 

Sjá einnig: Hatur­s­orð­ræða „ekki bara eitt­hvað bull“ 

Ey­rún vísar til tveggja dóma Hæsta­réttar sem féllu árið 2017 um hatur­s­orð­ræðu í garð hin­segin fólks. Dómarnir sem um ræðir féllu vegna kæru sam­takanna. Einnig vísar hún til dóms Hæsta­réttar frá 2002 þar sem dæmt var fyrir kyn­þátta­níð. Ey­rún segir ljóst að hafi á­kvæðið sem til stendur að breyta verið þannig þegar málin voru tekin fyrir hefði Hæsti­réttur lík­legast ekki dæmt líkt og hann gerði. 

„Þar er ekki verið að hvetja til of­beldis heldur bara verið að smána.“