Vilborg G. Hansen, fulltrúi Miðflokksins, hefur sagt sig úr bankaráði Seðlabanka Íslands en þar hefur hún verið varamaður. Ástæðan eru fréttir af ummælum sem þingmenn Miðflokksins viðhöfðu á bar í síðustu viku. Vilborg hefur að sama skapi sagt sig úr flokknum.

Frá þessu greinir Vilborg á Facebook. Hún segist hafa sent Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, og Gylfa Magnússyni, formann bankaráðs, úrsögnina. 

„Ég undirrituð segi mig hér með úr varamennsku bankaráðs Seðlabanka þar sem mér er ómögulegt að styðja þann flokk sem ég sit í umboði fyrir eftir fréttir gærdagsins í DV og Stundinni. Vinsamlega staðfestið úrsögn mína,“ skrifar Vilborg í bréfinu.