Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra, segir siða­reglur á­kær­enda sem ríkis­sak­sóknari hefur sett vera skýrar þegar kemur að fram­göngu á­kær­enda á opin­berum vett­vangi en Helgi Magnús Gunnars­son, vara­ríkis­sak­sóknari, hefur verið harð­lega gagn­rýndur fyrir fram­ferði sitt á sam­fé­lags­miðlum.

„[Á­kær­endur] mega ekki rýra traust og trú al­mennings með fram­göngu sinni á opin­berum vett­vangi og þetta gildir einnig um hátt­semi þeirra utan starfsins, og þar er einnig tekið sér­stak­lega fram að þátt­taka þeirra á sam­fé­lags­miðlum megi ekki vera til þess að hlut­leysi þeirra sem á­kærandi verði dregið í efa,“ segir Ás­laug í sam­tali við Frétta­blaðið um málið.

Segja Helga vanhæfan

Að­gerðar­hópurinn Öfgar sendi í gær á­kall til dóms­mála­ráð­herra þar sem meðal annars var bent á það að Helgi hafi líkað við færslu þar sem fjallað var um á­sakanir Þór­hildar Gyðu í garð Kol­beins Sig­þórs­sonar auk þess sem Helgi líkað við um­mæli þar sem Þór­hildur og Stíga­mót voru sökuð um fjár­kúgun.

„Þetta er ekki af­markað til­felli í net­hegðun Helga Magnúsar því hann hefur í­trekað, í gegnum árin, sýnt fram á kven­fyrir­litningu, inn­flytj­enda­and­úð og ó­þol­enda­væna af­stöðu með net­spori sínu,“ segir meðal annars í á­kalli hópsins. „Þarna sést hversu skýrt vara­ríkis­sak­sóknari hlýtur að teljast van­hæfur til að sinna starfi sínu.“

Þá sendu Stígamót frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem þau skoruðu á ráðherra að skipa nýjan vararíkissaksóknara í ljósi málsins.

Telur líklegt að ríkissaksóknari skoði málið

Þrátt fyrir að á­kallinu hafi verið beint til dóms­mála­ráð­herra segir Ás­laug að það þurfi að beina málinu til ríkis­sak­sóknara þar sem hann verður að njóta sjálf­stæðis í sínum störfum frá dóms­mála­ráð­herra. Ber þá stjórnin á­byrgð á því að siða­reglum sé fylgt af sak­sóknurum sem starfa við em­bættið.

„Auð­vitað finnst mér þessar siða­reglur alveg skýrar en það þarf að beina þessu til ríkis­sak­sóknara sem metur það síðan. Miðað við á hvað hefur verið bent að þá myndi maður halda að ríkis­sak­sóknari myndi skoða þetta mál,“ segir Ás­laug enn fremur.

Hún segir mikil­vægt að dóms­kerfið beiti sér rétt í málum þol­enda. „Ég held að það sé bara mjög mikil­vægt að við sem störfum við þetta skiljum stöðu þol­enda og hvernig við getum bætt og eflt traust þol­enda á kerfinu okkar og þurfum öll að vera saman í því, sama hvar við stöndum.“

Geta ekki tjáð sig um einstök mál

Sig­ríður Frið­jóns­dóttir ríkis­sak­sóknari sagðist ekki geta tjáð sig um málið þegar Frétta­blaðið leitaði til hennar um hvort um­mæli Helga teldust brot á siða­reglum eða hvort málið hafi komið inn á hennar borð.

„Á­lita­efni sem varða siða­reglur á­kær­enda og fram­göngu ein­stakra starfs­manna em­bættisins með hlið­sjón af þeim er ekki mál­efni sem mér er heimilt að fjalla um í fjöl­miðlum frekar en önnur starfs­manna­mál,“ segir í svari Sig­ríðar við fyrir­spurn Frétta­blaðsins.