Frumvarp menningar- og viðskiptaráðherra um aukaúthlutun úr sviðslistasjóði og launasjóði sviðslistafólks, hefur enn ekki verið samþykkt á Alþingi, þrátt fyrir að almenn sátt virðist vera um frumvarpið eftir fyrstu umræðu í síðasta mánuði.

Aðgerðunum er ætlað að styðja við sjálfstætt starfandi listamenn og tekur á tímabundinni fjölgun starfslauna og styrkja til sviðslistafólks og tónlistarflytjenda.

Styrkjunum átti að úthluta nú á vormánuðum, en miðað við núverandi stöðu er ljóst að einhverjar tafir verði þar á.

Erling Jóhannesson, forseti Bandalags íslenskra listamanna, segir seinaganginn á afgreiðslu og úthlutun slíkra styrkja tefja sviðslistageirann gríðarlega mikið. „Ég skil ekki af hverju þetta er ekki bara afgreitt. Þessi viðbót snýr að sjálfstætt starfandi sviðslistafólki og tónlistarfólki, sem er sá hópur sem var hvað viðkvæmastur á Covid-tímabilinu.“

Hann segir listafólk vera orðið langþreytt því erfitt sé að fara aftur af stað eftir svo langan þurrkatíma í greininni.

„Við sjáum það í gögnum Hagstofunnar að það er um 20 prósenta brottfall af einyrkjum úr menningar- og listageiranum. Við erum að missa þekkingu og mannafla úr greinunum.“

Erling segist þó bjartsýnn á að þetta verði samþykkt þar sem eining sé um frumvarpið á þinginu.

„Við eigum svo eftir að greina langtímaáhrifin, en á móti kemur að listamenn eru gegnumgangandi með ótrúlega aðlögunarhæfni og fljótir að rjúka af stað.“

Frumvarpið er nú til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd.