Atli Thor Fanndal framkvæmdastjóri Transparency International segir Ísland með „allt niður um sig“ þegar kemur að spillingarmálum en í viðtali við Fréttavaktina í kvöld brást hann við niðurstöðum nýjustu eftirfylgniskýrslu Greco eða Samtaka ríkja í Evrópuráðinu gegn spillingu sem kom út í gær.
Niðurstöður skýrslunnar voru að innleiðing Íslands væri enn ófullnægjandi en framkvæmdastjóri nefndarinnar telur þó næstu skýrslu að öllum líkindum verða þá síðustu frá Íslandi. Það sé margt í vinnslu en hafi ekki verið klárað.
„Við erum ekki með fastan þröskuld um hvað er í lagi og ófullkominn lagaramma,“ segir Atli Thor og að engin formleg stefna sé til um spillingarmál á Íslandi og hvernig eigi að berjast gegn henni.
„Við erum með skort á pólitískum ábyrgðarkúltúr,“ segir Atli Thor.
Hann segist sammála því að hlutirnir séu á réttri leið en að á sama tíma megi ekki gleyma því að í nær hverri viku verður traust á stjórnmálum fyrir hnjaski vegna losarabrags baráttu gegn spillingu á Íslandi.
Atli Thor er sem stendur á ráðstefnu IACC en þar er verið að ræða ýmis stefnumarkandi mál að hans sögn en á sama tíma segist hann reglulega spurður út í Samherjamálið.
„Flestir sem ég tala við hafa áhuga á því máli því það er skólabókar-spillingarmál,“ segir Atli Þór og að í raun sé málið mjög einfalt og að þannig virki alþjóðleg mútumál.