Sænski forsætisráðherrann Magdalena Andersson, sem er formaður Jafnaðarmannaflokksins, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að sóttvarnaaðgerðir í landinu vegna Covid-19 yrðu hertar. Nyamko Sabuni formaður Frjálslyndra í Svíþjóð er afar ósátt við þessa ákvörðun og telur stjórnvöld hafa misnotað valdið sem felst í sóttvarnalögum landsins.
Í samtali við Svenska Dagbladet segir hún engan rökstuðning fyrir hertum aðgerðum og nauðsynlegt sé að þær séu ræddar á þinginu, það eigi að taka ákvarðanir um aðgerðir.
„Ríkisstjórnin hefur misnotað vald sitt. Á blaðamannafundinum á mánudaginn voru hertar aðgerðir kynntar án nokkurs rökstuðnings og við teljum að tími sé kominn fyrir þingið að öðlist á nýjan leik ábyrgð á ákvörðunum um takmarkanir“, segir hún.

Þingið greiðir innan skamms atkvæði um framlengingu laganna til loka maí og munu Frjálslyndir greiða atkvæði gegn því. Þeir segja þó enn þörf á reglum um fjarlægðarmörk á veitingastöðum og í verslunum og telja að bólusetningarpassar séu vænleg leið í baráttunni við Covid-19. Þeir vilja engu að síður að þingið taki slíkar ákvarðanir, ekki stjórnvöld.
„Við höfum nú fengið tveggja ára reynslu af baráttunni við faraldurinn og hvernig Covid-19 hagar sér. Ég tel að tími sé kominn til að færa ábyrgðina til þingsins,“ segir Sabuni.
Félagsmálaráðherrann Lena Hallengren er lítt hrifinn af orðum formanns Frjálslyndra. „Það kemur mér nokkuð á óvart að Nyamko Sabuni átti sig ekki á því að það tekur tíma að breyta algjörlega um stefnu. Það er faraldur, faraldurinn heldur áfram. Við vildum öll óska þess að staðan væri ekki sú að fram væri komið afbrigði sem smitast hvort sem þú ert bólusettur eður ei“, segir ráðherrann.
