Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það athyglisverða nálgun Samtaka atvinnulífsins að sýna þvermóðsku við samningaborðið og fara ekki af neinni dýpt í samtalið við samninganefnd Eflingar. Engin raunveruleg viðbrögð hafi komið frá SA í kjölfar tilboða Eflingar.
„Efling hefur núna í tvígang gert Samtökum atvinnulífsins tilboð eftir að hafa lagt fram einfalda og mjög sanngjarna kröfugerð. Frá Samtökum atvinnulífsins hefur ekki komið neitt nema þessi þvermóðskufulla afstaða að það sé einfaldlega Eflingar að taka við þeim samningi sem samtökin gerðu við Starfsgreinasambandið. Það er auðvitað óásættanlegt fyrir okkur,“ segir Sólveig Anna.
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, ákvað í samráði við samninganefndir beggja aðila, að fresta samningafundi sem fyrirhugaður var í morgun fram til 4. janúar næstkomandi.
Að sögn Sólveigar hafði samninganefnd Eflingar komið saman eftir síðasta samningafund með Samtökum atvinnulífsins til að ráða ráðum sínum. Í kjölfarið hafi nefndin sent póst til ríkissáttasemjara þar sem farið hafi verið fram á að Samtök atvinnulífsins gerðu Eflingu gagntilboð.
„Það sem felst í okkar tilboði meðal annars er að þau kæmu til móts við þau atriði sem varða til dæmis samsetningu félagsmannahópsins. En við höfum bent á það með mjög skýrum hætti að niðurstaða samningsins sem var gerð við SGS hentaði einfaldlega ekki Eflingarfólki vegna þess að samsetning okkar félagsmannahóps er mjög ólík því sem gerist innan SGS,“ segir Sólveig Anna.
Þá muni fulltrúar beggja aðila hittast á morgun til þess að fara yfir uppbyggingu félagsmannahóps Eflingar og raunverulegt kostnaðarmat Samtaka atvinnulífsins.
„Efling er langstærsta félag verka- og launafólks á landinu og að menn geti talið sjálfum sér trú um það að þeir þurfi ekki að nálgast samningaviðræður við Eflingu af fullri alvöru er náttúrulega til marks um afskaplega undarlega sýn á þetta mikilvæga verkefni,“ segir Sólveig Anna.