Sól­veig Anna Jóns­dóttir, for­maður Eflingar, segir það at­hyglis­verða nálgun Sam­taka at­vinnu­lífsins að sýna þver­móðsku við samninga­borðið og fara ekki af neinni dýpt í sam­talið við samninga­nefnd Eflingar. Engin raun­veru­leg við­brögð hafi komið frá SA í kjöl­far til­boða Eflingar.

„Efling hefur núna í tví­gang gert Sam­tökum at­vinnu­lífsins til­boð eftir að hafa lagt fram ein­falda og mjög sann­gjarna kröfu­gerð. Frá Sam­tökum at­vinnu­lífsins hefur ekki komið neitt nema þessi þver­móðsku­fulla af­staða að það sé ein­fald­lega Eflingar að taka við þeim samningi sem sam­tökin gerðu við Starfs­greina­sam­bandið. Það er auð­vitað ó­á­sættan­legt fyrir okkur,“ segir Sól­veig Anna.

Aðal­steinn Leifs­son, ríkis­sátta­semjari, á­kvað í sam­ráði við samninga­nefndir beggja aðila, að fresta samninga­fundi sem fyrir­hugaður var í morgun fram til 4. janúar næst­komandi.

Að sögn Sól­veigar hafði samninga­nefnd Eflingar komið saman eftir síðasta samninga­fund með Sam­tökum at­vinnu­lífsins til að ráða ráðum sínum. Í kjöl­farið hafi nefndin sent póst til ríkis­sátta­semjara þar sem farið hafi verið fram á að Sam­tök at­vinnu­lífsins gerðu Eflingu gagn­til­boð.

„Það sem felst í okkar til­boði meðal annars er að þau kæmu til móts við þau at­riði sem varða til dæmis sam­setningu fé­lags­manna­hópsins. En við höfum bent á það með mjög skýrum hætti að niður­staða samningsins sem var gerð við SGS hentaði ein­fald­lega ekki Eflingar­fólki vegna þess að sam­setning okkar fé­lags­manna­hóps er mjög ólík því sem gerist innan SGS,“ segir Sól­veig Anna.

Þá muni fulltrúar beggja aðila hittast á morgun til þess að fara yfir uppbyggingu félagsmannahóps Eflingar og raunverulegt kostnaðarmat Samtaka atvinnulífsins.

„Efling er lang­stærsta fé­lag verka- og launa­fólks á landinu og að menn geti talið sjálfum sér trú um það að þeir þurfi ekki að nálgast samninga­við­ræður við Eflingu af fullri al­vöru er náttúru­lega til marks um af­skap­lega undar­lega sýn á þetta mikil­væga verk­efni,“ segir Sól­veig Anna.