Útvarpsstjórinn Stefán Eiríksson segir að stjórnendur RÚV hafi ekki staðið nógu þétt við bakið á Helga Seljan og fleiri starfsmönnum vegna Samherjamálsins svokallaða.
Þetta kemur fram á vef Blaðamannafélagsins þar sem útvarpsstjóri svarar spurningum vegna nýrra siðareglna RÚV. Helgi hefur áður tjáð sig opinberlega um það að hann telji að Stefán hafi gert mistök í málinu.
Samherji kærði Helga ásamt tíu öðrum starfsmönnum RÚV til siðanefndar Ríkisútvarpsins vegna þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni fyrirtækisins á samfélagsmiðlum. Siðanefndin úrskurðaði einungis Helga sekan fyrir brot á umræddum reglum vegna hluta ummæla hans á samfélagsmiðlum.
Í nýjum siðareglum RÚV er hvergi að finna ákvæðið sem felur í sér að starfsfólk í fréttaflutningi á vegum RÚV taki ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál.
Ákvæðið hafi gengið of langt
„Já, ég held að við höfum kannski ekki staðið alveg nógu þétt við bakið á þeim fréttamönnum og öðrum starfsmönnum sem lentu í þessum ótrúlegu hremmingum [fyrir það eitt] að hafa verið að sinna sinni vinnu,“ segir Stefán á vef Blaðamannafélagsins.
„Það held ég að hafi ekki tengst bara þessum siðareglum eða þessu tiltekna máli heldur ýmsu öðru, eins og t.d. aðgengi að og afhendingu á gögnum til þessa aðila, sem misnotaði það efni síðan sem varð til þess að við tókum fyrir það að láta efni af hendi í eigin framleiðslu þessa fyrirtækis á „fréttum.“
Enn reglur um tjáningu starfsfólks
Vinnureglur RÚV um fréttir sem endurskoðaðar voru 2020 gilda enn um tjáningu starfsmanna sem sinna fréttum.
„Þarna er réttilega fjallað um að þeir sem vinna hjá RÚV og eru að sinna fréttum og dagskrárgerð þurfa að gæta að því að það sé hafið yfir allan vafa að þeir séu hlutlægir og óhlutdrægir í sinni umfjöllun og séu ekki að tjá sig opinberlega, hvort heldur sem er á samfélagsmiðlum eða með öðrum hætti, um einhver mál sem viðkomandi er síðan að skrifa um og fjalla um. Um þetta atriði eru allir sammála,“ segir Stefán.