„Augljóslega hafa þessar hernaðaraðgerðir þeirra ekki skilað þeim árangri sem þeir vildu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, um herkvaðningu allt að 300 þúsund manna í Rússlandi í gær.

Þjóðarleiðtogar fordæmdu hver á fætur öðrum þá ákvörðun stjórnvalda í Kreml í gær að stórauka við herafla sinn í stríðinu í Rússlandi og boða til skyndiatkvæðagreiðslu til að innlima austurhéruðin í Úkraínu í Rússland.

„Ef maður á að draga einhverjar ályktanir af umræðunni hjá Sameinuðu þjóðunum þá er þetta stríð engum til hagsbóta,“ segir Katrín. Full ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af hvert átök muni leiða. „Þau eru að minnsta kosti ekki að stefna í friðsamlegri átt með þessum hætti,“ segir hún.

Aðspurð segir forsætisráðherra atburðina í gær ekki endilega þýða að nú sé líklegra en áður að stríðsátökin berist hingað til lands. Varðandi það hvað Ísland hafi gert til að styrkja varnir eftir að hernaðurinn í Úkraínu hófst segir Katrín að metið hafi verið hvar áhættan liggi.

„Við höfum styrkt verulega okkar netvarnir og netöryggismál. Síðan erum við auðvitað aðilar að alþjóðlegu samstarfi sem hefur verið á auknu viðbúnaðarstigi. Þar er ekki síður verið að horfa í hefðbundnari ógnir eins og það er kallað, það er að segja af hernaðarlegum toga,“ segir Katrín og nefnir þar sem dæmi aukið kafbátaeftirlit hér við land.

Ef maður á að draga einhverjar ályktanir af umræðunni hjá Sameinuðu þjóðunum þá er þetta stríð engum til hagsbóta.

„Það hefur verið mjög ríkur vilji til að koma í veg fyrir að átökin breiðist út, meðal annars af hálfu Atlantshafsbandalagsins, en auðvitað er það áhyggjuefni almennt þegar við sjáum þessa stigmögnun,“ segir Katrín, sem kveður líklegt að áform Pútíns verði umdeild í Rússlandi sjálfu og bendir á að í gær hafi flugvélar frá landinu fyllst af fólki sem vildi komast úr landi.

„Þarna er lagt af stað í ólögmæta innrás á engum forsendum öðrum en þeim að stækka yfirráðasvæði Rússlands. Og þegar það hefur ekki gengið eftir hlýtur fólk auðvitað að staldra við og velta fyrir sér hvort það eigi að draga það inn í áframhaldandi átök á þessum tímapunkti,“ segir forsætisráðherra.

Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, var einn þeirra sem fordæmdu útspil Pútíns í gær.

„Hvað varðar kjarnorkuhótanirnar er markmiðið það sama og hingað til – að sá ótta og skelfa almenning. Kreml reynir að fjárkúga alþjóðasamfélagið og vill hræða og aftra okkur frá því að hjálpa Úkraínu. Evrópa mun ekki láta undan,“ sagði Kallas.