Talið er að Rússar muni reyni að styrkja hernaðar­lega stöðu sína á Donbass-svæðið í Úkraínu enn frekar. Úkraínskir em­bættis­menn segja loft­á­rásir hafa haldið á­fram í dag meðal annars á í­búðar­hverfi sem hafi or­sakað dauða al­mennra borgara.

Volodí­mír Selenskíj, for­seti Úkraínu, sagði í dag­legri ræðu sinni í nótt að Rússar væru búnir að breyta Donbass í hel­víti og sakaði þá um þjóðar­morð: „Donbass hefur gjör­sam­lega verið lagt í rúst. Það er orðið hel­víti og það eru ekki ýkjur.“

Stríðið í Úkraínu hefur nú staðið yfir í nærri þrjá mánuði og her­foringja­ráð Úkraínu segir að stór­skota­hríð, þar á meðal frá fjöl­mörgum eld­flauga­skot­vörpum, hafi hæft borgara­lega inn­viði í Donbass auk þess sem rúss­neskar her­flug­vélar hafi hæft skot­mörk.

Stig­mögnun á­taka og tvö­földun loft­á­rása

Ríkis­stjóri Luhansk-héraðs, Serhi­y Gai­dai, sagði á Telegram að Rússar væru byrjaðir að jafna bæinn Se­verodo­netsk við jörðu en að sögn breska miðilsins The Guar­dian hafa Rússar um­kringt bæinn frá þremur hliðum og hafa allt að 15.000 manns leitað skjóls í sprengju­byrgjum.

„Loft­á­rásir hafa tvö­faldast, þeir eru að sprengja í­búðar­hverfi, eyði­leggja hús fyrir hús. Við vitum ekki hversu mikið af fólki hefur látist vegna þess að það er hreint út sagt ó­mögu­lega að fara í gegnum og skoða hverja einustu íbúð,“ segir Gai­dai.

Áður hafði verið greint frá því að fjöldi látinn ó­breyttra borgara í Luhansk-héraði í gær væri þrettán, þar af tólf í Se­verodo­netsk. Reu­ters frétta­stofan segir að ekki hafi tekist að stað­festa þessar tölur og Rússar neita því að hafa ráðist á ó­breytta borgara.

Ríkis­stjóri Do­netsk-héraðs, Pavlo Kyry­len­ko, hefur sömu­leiðis sagt borgina Bak­hmut, vestur af Popasnaíja, hafa verið undir stöðugum loft­á­rásum undan­farið.

„Þetta er með­vituð og glæp­sam­leg til­raun til að drepa eins marga Úkraínu­menn og mögu­legt er. Eyði­leggja eins mörg hús, fé­lags­lega inn­viði og stofnanir og mögu­legt er. Þetta mun upp­fylla skil­yrði þjóðar­morðs gegn úkraínsku þjóðinni og fyrir þetta munu inn­rása­r­aðilarnir verða sóttir til saka,“ sagði Selenskíj í ræðu sinni í nótt.

Rússneskir hermenn í rústum Ilyich járn- og stálversins í Maríupol.
Fréttablaðið/EPA

Maríu­pol fallin fyrir fullt og allt

Varnar­mála­ráð­herra Rússa, Sergej Shoigu, hefur sagt að „frelsun“ Luhansk lýð­veldisins verði lokið von bráðar. Héruðin Do­netsk og Luhansk lýstu yfir sjálf­stæði sínu í lok febrúar og er meint „verndun“ þeirra ein helstu rök Vla­dí­mírs Pútíns fyrir inn­rásinni í Úkraínu.

Rúss­neska þingið sagði í dag að verið væri að í­huga að leggja fram frum­varp sem myndi leyfa Rússum yfir fer­tugt og út­lendingum yfir þrí­tugt að ganga í rúss­neska herinn í til­raun til að styrkja hernaðar­lega stöðu sína.

Sam­kvæmt hernaðar­legum upp­lýsingum Breta er búist við því að Rússar reyni að styrkja hernaðar­lega stöðu sína í Donbass enn frekar nú þegar þeir hafa að fullu náð tökum á hafnar­borginni Maríu­pol í suð­austur Úkraínu.

Hart hefur verið barist um borgina undan­farnar vikur og er fall hennar einn stærsti sigur Rússa í annars brösug­legu stríði hingað til. Talið er að allt að 1700 úkraínskir her­menn hafi gefist upp við Asovs­tal stál­verið í Maríu­pol en úkraínskir em­bættis­menn hafa ekki viljað segja neitt um fjöldann af ótta við að það gæti stofnað björgunar­að­gerðum í hættu.