Talið er að Rússar muni reyni að styrkja hernaðarlega stöðu sína á Donbass-svæðið í Úkraínu enn frekar. Úkraínskir embættismenn segja loftárásir hafa haldið áfram í dag meðal annars á íbúðarhverfi sem hafi orsakað dauða almennra borgara.
Volodímír Selenskíj, forseti Úkraínu, sagði í daglegri ræðu sinni í nótt að Rússar væru búnir að breyta Donbass í helvíti og sakaði þá um þjóðarmorð: „Donbass hefur gjörsamlega verið lagt í rúst. Það er orðið helvíti og það eru ekki ýkjur.“
Stríðið í Úkraínu hefur nú staðið yfir í nærri þrjá mánuði og herforingjaráð Úkraínu segir að stórskotahríð, þar á meðal frá fjölmörgum eldflaugaskotvörpum, hafi hæft borgaralega innviði í Donbass auk þess sem rússneskar herflugvélar hafi hæft skotmörk.
Stigmögnun átaka og tvöföldun loftárása
Ríkisstjóri Luhansk-héraðs, Serhiy Gaidai, sagði á Telegram að Rússar væru byrjaðir að jafna bæinn Severodonetsk við jörðu en að sögn breska miðilsins The Guardian hafa Rússar umkringt bæinn frá þremur hliðum og hafa allt að 15.000 manns leitað skjóls í sprengjubyrgjum.
„Loftárásir hafa tvöfaldast, þeir eru að sprengja íbúðarhverfi, eyðileggja hús fyrir hús. Við vitum ekki hversu mikið af fólki hefur látist vegna þess að það er hreint út sagt ómögulega að fara í gegnum og skoða hverja einustu íbúð,“ segir Gaidai.
Áður hafði verið greint frá því að fjöldi látinn óbreyttra borgara í Luhansk-héraði í gær væri þrettán, þar af tólf í Severodonetsk. Reuters fréttastofan segir að ekki hafi tekist að staðfesta þessar tölur og Rússar neita því að hafa ráðist á óbreytta borgara.
Ríkisstjóri Donetsk-héraðs, Pavlo Kyrylenko, hefur sömuleiðis sagt borgina Bakhmut, vestur af Popasnaíja, hafa verið undir stöðugum loftárásum undanfarið.
„Þetta er meðvituð og glæpsamleg tilraun til að drepa eins marga Úkraínumenn og mögulegt er. Eyðileggja eins mörg hús, félagslega innviði og stofnanir og mögulegt er. Þetta mun uppfylla skilyrði þjóðarmorðs gegn úkraínsku þjóðinni og fyrir þetta munu innrásaraðilarnir verða sóttir til saka,“ sagði Selenskíj í ræðu sinni í nótt.

Maríupol fallin fyrir fullt og allt
Varnarmálaráðherra Rússa, Sergej Shoigu, hefur sagt að „frelsun“ Luhansk lýðveldisins verði lokið von bráðar. Héruðin Donetsk og Luhansk lýstu yfir sjálfstæði sínu í lok febrúar og er meint „verndun“ þeirra ein helstu rök Vladímírs Pútíns fyrir innrásinni í Úkraínu.
Rússneska þingið sagði í dag að verið væri að íhuga að leggja fram frumvarp sem myndi leyfa Rússum yfir fertugt og útlendingum yfir þrítugt að ganga í rússneska herinn í tilraun til að styrkja hernaðarlega stöðu sína.
Samkvæmt hernaðarlegum upplýsingum Breta er búist við því að Rússar reyni að styrkja hernaðarlega stöðu sína í Donbass enn frekar nú þegar þeir hafa að fullu náð tökum á hafnarborginni Maríupol í suðaustur Úkraínu.
Hart hefur verið barist um borgina undanfarnar vikur og er fall hennar einn stærsti sigur Rússa í annars brösuglegu stríði hingað til. Talið er að allt að 1700 úkraínskir hermenn hafi gefist upp við Asovstal stálverið í Maríupol en úkraínskir embættismenn hafa ekki viljað segja neitt um fjöldann af ótta við að það gæti stofnað björgunaraðgerðum í hættu.