„Þetta lítur ekkert vel út og kannski verr en ég átti von á,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands í samtali við Fréttablaðið en hann var hluti af hópi vísindamanna sem útbjó spálíkan fyrir heilbrigðisyfirvöld í vor.

Hann segir þróunina undanfarna daga minna á upphaf faraldurs. Hann áréttar að enn sé of snemmt að segja til um hvort að önnur bylgja faraldursins sé hafin hér á landi. Til þess þurfi frekari gögn og ætti myndin að skýrast á næstu sjö til fjórtán dögum. Nú sé þó mjög mikilvægt að vakta stöðuna vel.

„Maður er farinn að hafa áhyggjur af því hvort þetta sé að fara að breiðast út,“ segir hann.

Að sögn Thors er það líkt núna og með þróuninni í mars að einnig sé verið að glíma við hópsmit.

„Núna er kannski ólíkt, eins og Kári [Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar] hefur verið að hamra svolítið á, að það er fullt af smitum sem eru ótengd.“

Slíkt veki upp spurningar um hvort veiran sé útbreiddari en við gerum okkur grein fyrir.

„Þá hljóta að vera einhverjar manneskjur þarna á milli sem eru veikar og við vitum ekki um þær.“