Indriði Aðalsteinsson, sauðfjárbóndi á Skjaldfönn í Ísafjarðardjúpi, segir að rjúpan sjáist ekki lengur í kjörlendi hennar á Langadalsströnd, einmitt á því stóra svæði sem rjúpnaveiðimenn rómuðu fyrr á tímum.

„Hér voru risastórir flokkar af rjúpu á síðustu öld,“ segir Indriði, en hann kveðst hafa lagt byssuna á hilluna um aldamótin þegar stofninn lét stórlega á sjá: „Þá fór ég í birtingu með riffilinn um öxl og ætlaði mér góðan dag, enda kringumstæður góðar, stilla og snjódílar í fjöllum. Ég sá átta rjúpur, skaut þær allar, en sá svo ekki meira af fugli þann daginn. Þar með hætti ég þessu.“

Eftir það hefur Indriði verið gagnrýninn á rjúpnaveiði: „Mér ofbýður þessi brjálæðislega veiðimennska þar sem menn plaffa höglunum á heilu hópana á flugi. Það er svívirðilegur ræfildómur. Rjúpur eiga menn að skjóta með rifflum á jörðu niðri. Annað er böðulsháttur,“ segir hann.

Ole Anton Bieltvedt, formaður Jarðarvina, sagði í Fréttablaðinu í gær stofnstærð rjúpu minni en hún var árin þegar veiðin var bönnuð. Hann skorar á umhverfisráðherra að banna veiði í vetur.Indriði tekur undir. „Stofninn er ekki í veiðihæfu ástandi. Það er á hreinu.“