„Þær lúmsku hræringar sem hófust fyrir rúmu ári síðan hafa nú magnast upp í meiri háttar ham­farir í geldinga­dölum ís­lenskunnar,“ skrifar Vala Hafstað, þýðandi með meiru, í opnu bréfi sínu til útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins í Fréttablaðinu í dag.

Vala segir í grein sinn að mark­visst sé unnið að því í fjöl­miðlum að svipta tungu­málið okkar fegurð sinni og þokka. „Aldrei hefði mig órað fyrir að Ríkis­út­varpið færi þar fremst í flokki – sú stofnun sem ég hef frá blautu barns­beini borið mikla virðingu fyrir og tekið mér til fyrir­myndar hvað mál­far snertir,“ skrifar Vala.

Nánar útskýrir Vala í greininni að æ fleiri frétta­menn Ríkisútvarpsins taki sér í munn „ný­lensku“ sem virðist hafa verið fyrir­skipuð að ofan. „Þar á ég við orð­bragð á borð við stuðnings­fólk, hesta­fólk, björgunar­fólk, lög­reglu­fólk og aðila í alls kyns sam­setningum, í stað stuðnings-, hesta-, björgunar­sveitar- og lög­reglu­manna, og svo framvegis,“ skrifar hún.

Vala segir að svo virðist sem það hafi gleymst að konur séu og verði alltaf menn. Hú vitnar til orða Vigdísar Finnbogadóttur í aðraganda forsetakosninganna 1980.. „Það á ekki að kjósa mig af því að ég er kona, það á að kjósa mig af því að ég er maður, og innan orðsins maður er bæði karl og kona,“ sagði Vig­dís, bendir Vala á. Nú sé allt gert af á­kveðnum þrýsti­hópum til að vé­fengja þetta.

„Stuðningur við ný­lenskuna er á mis­skilningi byggður. Hún hefur nefni­lega ekkert með frjáls­lyndi eða kven­réttindi að gera, heldur ber hún ein­fald­lega vott um ein­strengings­legan hugsunar­hátt og al­geran skort á mál­til­finningu. Hún snýst ekki um jafn­réttis­bar­áttu heldur ýmist um of­stæki, sýndar­mennsku eða ótta við álit þrýsti­hópa. Það er hrein fá­sinna að líta á þessa afbökun tungu­málsins sem mikil­vægt vopn í bar­áttunni fyrir jafn­rétti. Það er sömu­leiðis út í hött að vinna mark­visst að því að út­rýma orðum sem eru fjarri því að kasta rýrð á nokkurn hóp. Þeir sem ný­lenskunni beita af­mynda tungu­málið undir yfir­skini til­tekinnar hug­mynda­fræði, en um leið rýra þeir og raska hefð­bundinni merkingu fjöl­margra orða,“ segir meðal annars í grein Völu Hafstað.

Kveðja, Vala Haf­stað