Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir í aðsendri grein á Vísi að ríkisstjórnin hafi í raun lýst vantrausti yfir sjálfa sig.
Þorgerður Katrín segir framhald á sölu hlut ríkisins í fjármálakerfinu hafi verið eina sérstaka stefnumál Sjálfstæðisflokksins sem komst í stjórnarsáttmálann, önnur stefnumál hefðu komið beint frá Vinstri grænum eða frá öllum flokkunum sameiginlega.
„Það var því mikið í húfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og stjórnina að vel tækist til,“ segir Þorgerður Katrín og bendir á að þetta hafi verið stærsta mál ríkisstjórnarinnar. Hún segist ekki þurfa að lýsa því nánar hvernig þetta gekk til því fátt annað er í fréttum þessa dagana.
Hún segir að í kjölfar þessa máls hafi átt sér stað stefnubreyting hjá ríkisstjórninni. Hún segir einnig að tilraun ríkisstjórnarinnar til þess að leggja Bankasýslu ríkisins niður megi varla skilja öðruvísi en sem tilraun til hvítþvottar.
Vikið var frá gildandi eigendastefnu ríkisstjórnarinnar. Þorgerður Katrín segir þetta þýða á mannamáli að eina sérstaka stefnumáli Sjálfstæðisflokksins hafi verið tekið af lífi.
Hún vill meina að með þessu sé ríkisstjórnin að lýsa yfir vantrausti á sjálfa sig. „Sjálfsvantraust er ný staða í íslenskri pólitík. Og þetta er staða sem er ekki góð,“ segir hún.
Hún vill að ríkisstjórnin geri hreint fyrir sínum dyrum því að á endanum ber hún ábyrgð á öllum sínum verkum. „Hvort sem henni líkar betur eða verr“, segir Þorgerður Katrín.
Hún segir samkeppni vera bannorð í hugum stjórnarflokkanna, hvort sem litið er til aðkomu erlendra fjárfesta í fjármálakerfinu eða fjölda annarra samkeppnismála sem ríkisstjórnin hefur tekið afstöðu gegn. Þorgerður Katrín vill meina að það bitni á endanum á hag almennings og lífsgæðum fólks.