Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir Aðalstein Leifsson, ríkissáttasemjara, hafa brotið lög sem honum beri að starfa undir þegar hann afhenti samninganefnd Eflingar miðlunartillögu að morgni 26. janúar síðastliðinn. Þá hafi hann rætt miðlunartillöguna í húsakynnum embættis ríkissáttasemjara, daginn áður en hann lagði tillöguna fyrir samninganefnd Eflingar.
Í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í morgun ræddi Sólveig Anna um þennan hnút sem kominn er upp í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, en hún segir framgöngu ríkissáttasemjara „svívirðilega.“
„Framferði ríkissáttasemjara er auðvitað grunnurinn að því stórkostlega vandamáli og alvarlegu stöðu sem uppi er komin. Ríkissáttasemjari brýtur lögin sem honum ber að starfa undir, þegar hann afhendir Eflingu miðlunartillögu að morgni 26. janúar,“ segir Sólveig Anna.
Atburðarásin hafi verið hin ótrúlegasta.
„Daginn áður, þann 25. janúar, frétti ég af því fyrir algjöra tilviljun að ríkissáttasemjari sé í húsakynnum embættisins á kaffistofunni að ræða það með mjög opinskáum hætti að miðlunartillaga sé í vændum,“ segir Sólveig Anna. Hún hafi þá samstundis sent tölvupóst á Aðalstein, sem hafi aldrei staðfest við hana að hann væri að undirbúa slíka miðlunartillögu. Hann hafi þó viljað fá samninganefnd Eflingar á fund daginn eftir, sem Sólveig Anna segir hafa reynst erfitt.
„Ég átti erfitt með að boða samninganefndina á fund með svo skömmum tíma, en hann hlustaði ekki á þau rök,“ segir hún.
Að endingu hafi hún fallist á að mæta daginn eftir.
„Hann afhendir tvö undirrituð og tilbúin plögg, miðlunartillöguna og kröfu um afhendingu á kjörskrá. Í lögum segir með skýrum hætti að ráðgast skal við báða aðila deilunnar áður en slíkt er gert,“ segir Sólveig Anna.
„Það er enginn að halda því fram að þetta þýði að báðir deiluaðilar þurfi að samþykkja, en við skiljum öll hvað ráðgast þýðir. Það þýðir að bera undir, að ræða við. Ekkert af þessu gerist,“ bætir hún við.
Staðan sé því gríðarlega alvarleg.
„Þetta er ekki aðeins brot á þeim lögum sem ríkissáttasemjari starfar undir, heldur er það einnig grafalvarleg aðför að lögvörðum lýðræðislegum réttindum félagsfólks Eflingar, að leiða kjarasamninga til lykta og í þeim tilgangi lagt niður störf til að knýja á um ásættanlega niðurstöðu,“ segir Sólvegi Anna.
„Einn embættismaður ákveður þarna, þvert á lög, þvert á allar hefðir og venjur sem segja til um það að sannarlega skuli, í það minnsta, ráðgast við báða aðila,“ segir hún.
Spurð hvort hún ætli að afhenda kjörskrá Eflingar ef Efling tapi málinu fyrir Héraðsdómi segir Sólveig Anna að áfrýjun verði þá líklegasta niðurstaðan.
„Um leið og sú staða liggur fyrir metum við hver næstu skref verða. Ég hef fulla trú á því í báðum þessum málum hafi Efling sigur,“ segir hún, og bætir við að allur málatilbúningur sé bæði langsóttur og yfirgengilegur.
„Það er ekki hægt að þræta um það að strax frá því að við höfðum vísað deilunni til ríkissáttasemjara kom fljótlega í ljós að það var enginn vilji hjá embættinu til þess að knýja á um það að raunverulega eðlilegar samningaviðræður færu af stað,“ segir Sólveig Anna.
„Ég ætla ekkert að þykjast hafa farið í gegnum margar samningalotur, en ég hef verið í erfiðum kjarasamningsviðræðum og hef ýmislegt séð, en þetta hef ég aldrei upplifað áður. Það voru engar samningaviðræður.“