Sól­veig Anna Jóns­dóttir, for­maður Eflingar, segir Aðal­stein Leifs­son, ríkis­sátta­semjara, hafa brotið lög sem honum beri að starfa undir þegar hann af­henti samninga­nefnd Eflingar miðlunar­til­lögu að morgni 26. janúar síðast­liðinn. Þá hafi hann rætt miðlunartillöguna í húsakynnum embættis ríkissáttasemjara, daginn áður en hann lagði tillöguna fyrir samninganefnd Eflingar.

Í þættinum Sprengi­sandur á Bylgjunni í morgun ræddi Sól­veig Anna um þennan hnút sem kominn er upp í kjara­deilu Eflingar og Sam­taka at­vinnu­lífsins, en hún segir fram­göngu ríkis­sátta­semjara „sví­virði­lega.“

„Fram­ferði ríkis­sátta­semjara er auð­vitað grunnurinn að því stór­kost­lega vanda­máli og al­var­legu stöðu sem uppi er komin. Ríkis­sátta­semjari brýtur lögin sem honum ber að starfa undir, þegar hann af­hendir Eflingu miðlunar­til­lögu að morgni 26. janúar,“ segir Sól­veig Anna.

At­burða­rásin hafi verið hin ó­trú­legasta.

„Daginn áður, þann 25. janúar, frétti ég af því fyrir al­gjöra til­viljun að ríkis­sátta­semjari sé í húsa­kynnum em­bættisins á kaffi­stofunni að ræða það með mjög opin­skáum hætti að miðlunar­til­laga sé í vændum,“ segir Sól­veig Anna. Hún hafi þá sam­stundis sent tölvu­póst á Aðal­stein, sem hafi aldrei stað­fest við hana að hann væri að undir­búa slíka miðlunar­til­lögu. Hann hafi þó viljað fá samninga­nefnd Eflingar á fund daginn eftir, sem Sól­veig Anna segir hafa reynst erfitt.
„Ég átti erfitt með að boða samninga­nefndina á fund með svo skömmum tíma, en hann hlustaði ekki á þau rök,“ segir hún.

Að endingu hafi hún fallist á að mæta daginn eftir.

„Hann af­hendir tvö undir­rituð og til­búin plögg, miðlunar­til­löguna og kröfu um af­hendingu á kjör­skrá. Í lögum segir með skýrum hætti að ráðgast skal við báða aðila deilunnar áður en slíkt er gert,“ segir Sól­veig Anna.

„Það er enginn að halda því fram að þetta þýði að báðir deilu­aðilar þurfi að sam­þykkja, en við skiljum öll hvað ráðgast þýðir. Það þýðir að bera undir, að ræða við. Ekkert af þessu gerist,“ bætir hún við.

Staðan sé því gríðar­lega al­var­leg.

„Þetta er ekki að­eins brot á þeim lögum sem ríkis­sátta­semjari starfar undir, heldur er það einnig graf­alvar­leg að­för að lög­vörðum lýð­ræðis­legum réttindum fé­lags­fólks Eflingar, að leiða kjara­samninga til lykta og í þeim til­gangi lagt niður störf til að knýja á um á­sættan­lega niður­stöðu,“ segir Sól­vegi Anna.

„Einn em­bættis­maður á­kveður þarna, þvert á lög, þvert á allar hefðir og venjur sem segja til um það að sannar­lega skuli, í það minnsta, ráðgast við báða aðila,“ segir hún.

Spurð hvort hún ætli að af­henda kjör­skrá Eflingar ef Efling tapi málinu fyrir Héraðs­dómi segir Sól­veig Anna að á­frýjun verði þá lík­legasta niður­staðan.

„Um leið og sú staða liggur fyrir metum við hver næstu skref verða. Ég hef fulla trú á því í báðum þessum málum hafi Efling sigur,“ segir hún, og bætir við að allur mála­til­búningur sé bæði lang­sóttur og yfir­gengi­legur.

„Það er ekki hægt að þræta um það að strax frá því að við höfðum vísað deilunni til ríkis­sátta­semjara kom fljót­lega í ljós að það var enginn vilji hjá em­bættinu til þess að knýja á um það að raun­veru­lega eðli­legar samninga­við­ræður færu af stað,“ segir Sól­veig Anna.

„Ég ætla ekkert að þykjast hafa farið í gegnum margar samninga­lotur, en ég hef verið í erfiðum kjara­samnings­við­ræðum og hef ýmis­legt séð, en þetta hef ég aldrei upp­lifað áður. Það voru engar samninga­við­ræður.“